Rakel tekur við framkvæmdastjórn Leynis

Rakel Óskarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Leynis á Akranesi. Hún tekur við starfinu af Guðmundi Sigvaldasyni, sem stýrt hefur klúbbnum frá árinu 2013.

Rakel hefur störf föstudaginn 10. janúar næstkomandi og var að vonum ánægð með ráðninguna þegar Skessuhorn ræddi við hana í morgun. „Starfið leggst mjög vel í mig enda einstaklega spennandi umhverfi að starfa í þar sem golfíþróttin fer hratt vaxandi á Íslandi. Ég hlakka til að vinna með öllu því góða og duglega fólki sem stendur að baki klúbbnum og veit að ég tek við góðu búi af fráfarandi framkvæmdastjóra og stjórn,“ segir Rakel í samtali við Skessuhorn. „Starfinu fylgja spennandi tækifæri og miklar áskoranir. Starfsumhverfi Golfklúbbsins Leynis hefur batnað til muna á síðustu misserum og ekkert því til fyrirstöðu að blása í seglin og gera klúbbinn stærri og völlinn eins og hann getur orðið bestur,“ bætir hún við.

Rakel er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst og með meistarapróf í markaðs- og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Hún hefur meðal annars gegnt starfi markaðs- og atvinnufulltrúa Akraneskaupstaðar og starfað við verslunarrekstur í Versluninni Bjargi. Rakel hefur verið bæjarfulltrúi á Akranesi frá árinu 2014 og var oddviti á lista Sjálfstæðisflokks fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018. Samhliða störfum bæjarstjórnarfulltrúa hefur hún tekið að sér ýmis verkefni, hefur meðal annars setið í stjórn Byggðastofnunar, Orkuveitu Reykjavíkur, Sambands íslenskra sveitarfélaga, verið formaður Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi og formaður sveitarstjórnarvettvangs EFTA.

Líkar þetta

Fleiri fréttir