Ljósm. úr safni/ sá.

Misstu af lestinni eftir hléið

Snæfellingar biðu lægri hlut gegn Selfossi þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Stykkishólmi. Eftir jafnan fyrri hálfleik náðu gestirnir undirtökunum í þriðja leikhluta og sigruðu að lokum með 104 stigum gegn 81.

Snæfellingar leiddu í upphafi leiks áður en gestirnir tóku góða rispu og komust átta stigum yfir um miðjan leikhlutann. Þá náðu heimamenn góðum kafla og leiddu með einu stigi eftir upphafsfjórðunginn, 27-26. Leikurinn var í járnum í öðrum leikhluta og liðin skiptust á að leiða. Að honum loknum höfðu Snæfellingar eins stigs forystu, 53-52.

Selfyssingar náðu undirtökunum í upphafi þriðja leikhluta. Þeir tóku forystuna strax í upphafi síðari hálfleiks, leiddu allan þriðja leikhluta og voru níu stigum yfir fyrir lokafjórðunginn, 65-74. Þar héldu Selfyssingar uppteknum hætti, juku forskot sitt og sigruðu að lokum með 23 stigum, 81-104.

Anders Gabriel Andersteg var atkvæðamestur Snæfellinga í leiknum með 28 stig og sjö fráköst. Aron Ingi Hinriksson skoraði 19 stig og tók fimm fráköst, Benjamín Ómar Kristjánsson skoraði tólf stig og tók sjö fráköst, Eiríkur Már Sævarsson var með níu stig, Ísak Örn Baldursson skoraði sex stig, Dawid Einar Karlsson skoraði fjögur, Sæþór Sumarliðason tvö og Kristófer Kort Kristjánsson eitt stig.

Chris Cunningham var atkvæðamestur í liði gestanna með 29 stig og 16 fráköst, Kristijan Vladovic skoraði 23 stig og gaf níu stoðsendingar og þeir Sveinn Hafsteinn Gunnarsson og Svavar Ingi Stefánsson skoruðu tíu stig hvor.

Snæfellingar sitja í botnsæti deildarinnar með tvö stig, jafn mörg og Sindri í sætinu fyrir ofan en Hornfirðingar eiga þó leik til góða á Snæfell. Næsti leikur Hólmara er Vesturlandsslagur gegn Skallagrími fimmtudaginn 12. desember næstkomandi. Sá leikur fer fram í Borgarnesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira