Þessi mynd Collingwoods prýðir nýju bók Guðrúnar Sveinbjarnardóttur fornleifafræðings.

Reykholtsverkefnið verður gert upp á samkomu í Snorrastofu

Þriðjudaginn 26. nóvember næstkomandi stendur Snorrastofa fyrir kvölddagskrá kl. 19:30 í Bókhlöðunni, þar sem mörkuð verða lok Reykholtsverkefnisins. Það hefur verið undir stjórn Snorrastofu og fleiri stofnana í 20 ár, allt frá árinu 1999. Reifað verður hvert mat sé hægt að leggja á verkefnið og hver framtíð verkefna í sama dúr geti orðið. Reykholtsverkefnið er þverfaglegt, alþjóðlegt miðaldarannsóknarverkefni á sviði bókmennta, fornleifafræði, landafræði og sagnfræði. Það leiddi saman fjölda fræðimanna og var þátttakendum ætlað að glíma við sömu viðfangsefni, Snorra Sturluson, ævi og störf og Reykholt í tíð hans. Sameiginlegur rammi verkefnisins varð hugtakið „miðstöð“ og hvernig Snorri hafi mótað þá miðstöð í Reykholti. Fornleifarannsóknir í Reykholti hafa vakið mesta athygli verkefnisins, sem var annars afar fjölþætt og hefur vakið umræður á mörgum sviðum. Um það vitnar m.a. margháttuð útgáfa innan ramma verkefnisins um bókmenntir, sögu og náttúru, auk fornleifa. Á samkomunni verður kynnt ný bók Guðrúnar Sveinbjarnardóttur, Reykholt í ljósi fornleifanna og fram fara pallborðsumræður þar sem litið verður til fortíðar og framtíðar.

Fyrst flytur Guðrún Sveinbjarnardóttir fyrirlesturinn, Reykholt í ljósi fornleifanna og að honum loknum verða umræður undir stjórn Bjarna Guðmundssonar á Hvanneyri, sem lengi sat í stjórn Snorrastofu. Í umræðunum taka þátt Benedikt Eyþórsson sagnfræðingur, Egill Erlendsson landfræðingur, Guðrún Gísladóttir landfræðingur, Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Guðrún Sveinbjarnardóttir fornleifafræðingur og Helgi Þorláksson sagnfræðingur.

Aðstandendur Reykholtsverkefnisins bjóða til kaffiveitinga á þessum ánægjulegu tímamótum og enginn aðgangseyrir verður innheimtur. Ástæða er til að vekja athygli á að kvöldið hefst klukkan hálf-átta.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir