Lára Magnúsdóttir í hlutverki Auðar og Heiðmar Eyjólfsson í hlutverki Baldurs. Ljósm. Gunnar Viðarsson.

Leikdómur – Fimm stjörnu sýning sem allir ættu að sjá

Það var ekki laust við að spennu gætti meðal gesta sem mættir voru í Bíóhöllina á Akranesi síðastliðið föstudagskvöld. Framundan var frumsýning Skagaleikflokksins á söngleiknum Litlu Hryllingsbúðinni, stærsta verkefni sem hið gamalgróna leikfélag hafði ráðist í svo árum og jafnvel áratugum skiptir. Frést hafði að stemningin meðal leikara og annarra sem þátt tóku í uppfærslunni hefði verið góð, fyrst í húsnæði aflagðrar Sementsverksmiðju við Mánabraut, en undir það síðasta á fjölum Bíóhallarinnar. Valinn maður hafði fengist til að skipa hvert rúm og góður andi hafði svifið yfir vötnum þær átta viku sem æfingar og uppsetning á verkinu höfðu staðið yfir. Valgeir Skagfjörð var fenginn til að leikstýra og margir sem til hans þekkja vita að hans styrkleiki er að laða fram það besta í hverri manneskju. Á föstudagskvöldið var svo komið að stund sannleikans. Þegar tjaldið var dregið frá og fyrsti takturinn var sleginn.

Verkið um Litlu Hryllingsbúðina er eftir þá Howard Ashman og Alan Menken en íslensk þýðing þess var í höndum grínarans Gísla Rúnars Jónssonar. Sjálfur Meistari Megas þýddi svo söngtextana. Sögusviðið er lítil blómabúð sem í upphafi verksins má muna má fífil fegurri. En það átti eftir að breytast. Músnik gamli sem rekur búðina er við það að fara að loka, þar sem viðskiptin eru lítil sem engin. Hjá honum starfar hins vegar tökubarnið Baldur, dáðadrengur sem jafnframt er aðal sögupersóna í verkinu. Hann tekur í fóstur plöntu nokkra sem ekki er öll þar sem hún sýnist. Plantan fer fyrst að nærast, vaxa og dafna, þegar henni er gefið mannablóð og að endingu er hún orðin verulega heimtufrek. Auk blómabúðarinnar er sögusviðið gatan og persónur sem þar hafast við. Leikar færast einnig á tannlæknastofu. Stúlkan sem starfar við hlið Baldurs í blómabúðinni er hin aðal sögupersónan. Hún á ógeðfelldan kærasta sem kemur við sögu og er tannlæknir. Ég verð að segja að ég er þakklátur fyrir hversu ólík persóna sá sem tannlækninn leikur, er utan sviðs, enda starfar hann mér við hlið virka daga! En í verkinu spila einnig stúlkurnar í götunni stórt hlutverk auk fjölda annarra. Meðal þeirra götusópari, sem í mínum huga er þessi senuþjófur sem allar góðar leiksýningar hafa til að bera, en einnig Stebbi vinur minn og svo einfaldlega allir hinir.

Tónlist skipar stóran sess í uppfærslu á Litlu hryllingsbúðinni. Í leikmyndinni er hljómsveit komið fyrir á efra sviði og gátu áhorfendur þannig fylgst með Birgi Þórissyni og hans mönnum allan tímann. Þar var einnig Orri Jónsson sem ljáði plöntunni rödd sína á afar trúverðugan hátt. Plöntunni sjálfri stýrðu hins vegar tveir aðrir og var samleikur þeirra allra frábær. En verk sem þetta væri lítils virði án söngs og þar fær Skagaleikflokkurinn fimm stjörnur.

Aðalhlutverkin eru í höndum þeirra Heiðmars Eyjólfssonar, sem leikur Baldur, og Láru Magnúsdóttur sem fer með hlutverk Auðar. Bæði eru afar góð í túlkun sinni bæði í söng og leik og ekki síður söngdífurnar sem fylgja sögupersónum eftir nær alla sýninguna; þær Ingibjörg Ólafsdóttir, Katrín Valdís Hjartardóttir, Aldís Eir Valgeirsdóttir og Halla Jónsdóttir. Allir stóðu sig með prýði í hlutverkum sínum, dansi og túlkun. Alltof langt mál yrði að nefna alla sem að verkinu standa, enda koma að þessari uppfærslu hátt í fimmtíu einstaklingar. Aðal atriðið fannst mér að allir stóðu sig vel.

Það er því skemmst frá því að segja að sýning Skagaleikflokksins var afburða góð skemmtun. Á frumsýningu var aldrei hnökra að finna og eiginlega fannst mér hábölvað þegar sýningin var á enda, lokatónarnir höfðu verið slegnir og halda skyldi heim í kvöldhúminu. Sjálfur tók ég margsinnis þátt í uppfærslu leikrita á árum áður og veit vel hversu mikil vinna liggur að baki uppsetningu af þessu tagi. Mér finnst aðdáunarvert hversu vel Gunnar Sturla Hervarsson og hans fólk í Skagaleikflokknum tókst upp í þessari metnaðarfullu uppfærslu. Hvet ég því alla sem vettlingi geta valdið að kaupa miða sér miða og láta ekki menningarviðburð af þessu kaliberi fram hjá sér fara. Verkið fær einfaldlega fimm stjörnur hjá mér, annað væri ósanngjarnt.

-mm

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Unglingalandsmóti frestað

Framkvæmdarnefnd Unglingalandsmóts UMFÍ í samráði við sóttvarnarlæknir og Almannavarnir hafa ákveðið að fresta mótinu sem fara átti fram á Selfossi... Lesa meira

Ýmiskonar ferðamáti

Nýliðin helgi var líklega einhver stærsta ferðahelgi í langan tíma á Snæfellsnesi enda veðurspáin hagstæð og því mikið af ferðalöngum... Lesa meira