Horft yfir salinn við upphaf ráðstefnunnar í Hjálmakletti.

Haldið var upp á fimmtíu ára afmæli SSV

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi voru stofnuð í árslok 1969. Síðastliðinn föstudag var haldið upp á þau tímamót með ráðstefnu í Hjálmakletti í Borgarnesi. Eggert Kjartansson formaður stjórnar SSV setti ráðstefnuna og fór í nokkrum orðum yfir söguna frá upphafi og starfsemi samtakanna í dag. Felst hún m.a. í ráðgjöf við frumkvöðla og fyrirtæki, stefnumótun, uppbyggingaráætlun landshlutans og hlutdeild í rekstri Markaðsstofu Vesturlands, en um Vesturland fór á síðasta ári um ein milljón ferðamanna. Páll S Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV tók svo við stjórninni. Við þetta tækifæri ávarpaði einnig Guðjón Ingvi Stefánsson gesti. Hann sem ungur verkfræðingur var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri SSV og gegndi því starfi fram undir aldamót. Hann hafði nokkru áður getið sér gott orð fyrir röggsemi sem framkvæmdastjóri skákeinvígis aldarinnar þegar Fischer og Spassky áttust við í Laugardalshöllinni. Guðjón rifjaði upp að lagning slitlags á þéttbýlisstaði á Snæfellsnesi hafi verið eitt fyrsta átaksverkefnið sem SSV beitti sér fyrir. Samtökin komu sér einnig upp húsnæði við Bjarnarbraut í Borgarnesi þar sem starfsemin fer enn fram í. Aðstæður til reksturs voru gjörólíkar á þessum tíma, löngu fyrir tölvuvæðingu og sjálfvirkir símar ekki komnir í sveitir. Fljótlega var farið að skoða framtíðarstað fyrir sorpurðun og á vettvangi samtakanna var urðunarstaður valinn í Fíflholtum á Mýrum og jörðin keypt. Á upphafsárum samtakanna voru sveitarfélög á Vesturlandi 39, en eru í dag tíu.

Fulltrúar KPMG kynntu á ráðstefnunni helstu niðurstöður úr óútkominni skýrslu sem fjallar um sviðsmyndagreiningu og mögulega þróun atvinnulífs og samfélags á Vesturlandi. Þá var röðin komin að fjórum ungum Vestlendingum sem kynntu sína sýn á framtíð landshlutans. Þau Bjarki Þór Grönfeldt, Elín Margrét Böðvarsdóttir, Auður Kjartansdóttir og Ása Katrín Bjarnadóttir eru öll borin og barnfædd í landshlutanum. Þau starfa ýmist á heimaslóðum, eru í námi eða hafa flust burtu. Áhugvert var að hlíða á þeirra sýn um framtíðina, en öll komu þau með föðurlegar ábendingar um það sem betur mætti fara, en fóru jafnframt yfir margt af því sem gefur Vesturlandi sérstöðu. Nefndu verðmæta náttúru, umhverfismál og mikilvægi þess að koma í veg fyrir einangrun einstaklingsins í huliðsheimi tölvutækninnar. Það megi gera með samheldni og væntumþykju í garð náungans. Öll voru þau sammála um að á Vesturlandi hefði verið gott að alast upp. Bjarki og Elín Margrét í sveit, Auður í Stykkishólmi, nú búsett í Snæfellsbæ, en Ása Katrín á Akranesi. Brýndu þau eldri íbúa til að hræðast ekki þær breytingar sem eru að verða samhliða tæknivæðingu fjórðu iðnbyltingarinnar.

Eftir kaffihlé var komið að pallborðsumræðum sem Gísli Einarsson dagskrárgerðarmaður hjá RUV var fenginn til að stýra. Í pallborði voru bæjarstjórarnir Sævar Freyr Þráinsson á Akranesi og Björg Ágústsdóttir í Grundarfirði auk ráðherranna Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, Ásmundar Einars Daðasonar og Guðmundar Inga Guðbrandssonar. Ræddu þau vítt og breytt um áskoranir og tækifæri Vesturlands sem landshluta, svöruðu fyrirspurnum Gísla og ábendingum úr sal. Að endingu var blásið til veislu og Nýsköpunarverðlaun SSV afhent í fjórða sinn, eins og sagt er frá í annarri frétt hér í blaðinu.

Þrátt fyrir að Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafi nú fyllt hálft hundrað í árum talið, eru verkefnin fjölmörg og krefjandi. Sveitarstjórnarfólk víðsvegar úr landshlutanum mætti vel á ráðstefnuna, en fáir utan þess geira samfélagsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir