Keira Robinson í baráttunni í leiknum gegn Val. Ljósm. Skallagrímur.

Íslandsmeistararnir of stór biti

Skallagrímskonur máttu játa sig sigraðar gegn Íslandsmeisturum Vals, 60-82, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna. Leikið var í Borgarnesi á laugardagskvöld.

Leikurinn fór hægt af stað. Valskonur skoruðu fyrstu fimm stigin og þannig var staðan þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Skallagrímskonur jöfnuðu í 5-5 en eftir það tóku Valskonur góða rispu og leiddu með 17 stigum gegn átta eftir upphafsfjórðunginn. Íslandsmeistararnir höfðu yfirhöndina í öðrum leikhluta, skoruðu 17 stig gegn 11 stigum Skallagríms og fóru með 15 stiga forskot inn í hálfleikinn, 19-34.

Skallagrímskonur minnkuðu muninn í tíu stig í upphafi síðari hálfleiks en eftir það sýndu Valskonur mátt sinn og megin. Jafnt og þétt juku þær forskotið á nýjan leik og voru komnar með 26 stiga forystu fyrir lokafjórðunginn, 33-59. Skallagrímskonur minnkuðu muninn í 18 stig í fjórða leikhluta en komust ekki nær. Valskonur voru einfaldlega einu númeri of stórar og sigruðu að lokum með 22 stigum, 60-82.

Keira Robinson var atkvæðamest á báðum endum vallarins í liði Skallagríms. Hún skoraði 29 stig, tók níu fráköst og stal hvorki fleiri né færri en átta boltum. Emilie Hesseldal kom henni næst með tólf stig, tók 13 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Maja Michalska skoraði sex stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með fimm stig og átta fáköst, Árnína Lena Rúnarsdóttir og Clara Colding-Poulsen skoruðu þrjú stig hvor og Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði tvö stig.

Helena Sverrisdóttir skoraði 20 stig og tók 14 fráköst í liði Vals. Kiana Johnson skoraði 20 stig einnig og gaf ellefu stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir skoraði 16 stig og Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði tólf.

Eftir sjö leiki situr Skallagrímur í fjórða sæti deildarinnar með átta stig, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir ofan. Þessi tvö lið mætast í næstu umferð, sunnudaginn 24. nóvember næstkomandi. Sá leikur fer fram í Hafnarfirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir