Dæmdur fyrir skattsvik og peningaþvætti

Maður var í Héraðsdómi Vesturlands dæmdur til tíu mánaða fangelsisvistar, sem er skilorðsbundin til þriggja ára, fyrir brot gegn bókhaldslögum, skattalögum og peningaþvætti. Auk þess var honum gert að greiða 36,1 milljón króna í sekt innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins, ellegar sæta tólf mánaða fangelsisvist. Dómur var upp kveðinn í Héraðsdómi Vesturlands föstudaginn 1. nóvember síðastliðinn.

Manninum var gefið að sök að hafa sem framkvæmdastjóri fyrirtækis rangfært bókhald hlutafélagsins með útgáfu rangra kreditreikninga, í þeim tilgangi að taka fjármuni úr félagi sínu í eigin þágu. Sömuleiðis að hafa brotið gegn skattalögum, með því að hafa sleppt því að telja fram rúmlega 34 milljónir í skattskyldar tekjur vegna tekjuáranna 2012, 2013 og 2014. Þá hafi hann ekki gefið upp rúmlega 10,5 milljóna króna tekjur frá öðru einkahlutafélagi og heldur ekki notkun á erlendu kreditkorti sem þriðji aðili greiddi fyrir. Með því hafi ákærði komist hjá því að greiða rúmlega 20,6 milljónir króna í tekjuskatt og útsvar.

Þá var honum sömuleiðis gefið að sök að hafa stundað peningaþvætti með því að hafa nýtt ávinning af brotum sínum, samtals rúnmlega 20,6 milljónir króna, í eigin þágu.

Játaði brot sín

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi skýlaust játað brot sýn fyrir dómi og að játning hans sé studd sakargögnum. Maðurinn hefur ekki komist í kast við lögin áður og mat dómstóllinn játningu hans honum til málsbóta. Því þótti dómstólnum hæfileg refsing hans ákveðin tíu mánaða fangelsi, skilorðsbundin til þriggja ára.

Ákærði hafði þegar greitt vangreiddan tekjuskatt og skattaálag þegar dómurinn var kveðinn upp ákvað dómstóllinn að fésekt ákærða skyldi nema tvöfaldri vangoldinni upphæð vanskilanna, sem er lágmarksrefsing skv. lögum um tekjuskatt. Sú fjárhæð sem undan var dregin var tæpar 44,6 milljónir og vantaldar skattgreiðslur vegna þeirra rúmar 20,6 milljónir. Var manninum því gert að greiða að lágmarki rúmar 41,2 krónur að frádregnum skattgreiðslum vegna álags vantalsin tekjuskatts, samtals tæpar 5,2 milljónir. Samtals var hann því dæmdur til að greiða 36,1 milljón króna í sekt innan fjögurra mánaða frá uppkvaðningu dómsins, ellegar sæta tólf mánaða fangelsi.

Skipaður verjandi afsalaði sér þóknun fyrir verjendastörf sín og engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir