Úr vinnslusal Ísfisks hf. á Akranesi. Ljósm. úr safni/ kgk.

Ekki fengið greidd laun í tvo mánuði

Formaður VLFA segir starfsfólk Ísfisks í skelfilegri stöðu

Staða starfsfólks Ísfisks á Akranesi er skelfileg að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness. Vilhjálmir ritar pistil á Facebook-síðu sína þar sem hann svarar frétt mbl.is frá því í gær, þar sem haft var eftir Albert Svavarssyni, framkvæmdastjóra Ísfisks, að flestir þeirra rúmlega 40 starfsmanna sem sagt var upp störfum 1. október væru komnir á atvinnuleysisbætur.

Vilhjálmur Birgisson.

Þetta segir Vilhjálmur ekki rétt. „Það er enginn starfsmaður kominn á atvinnuleysisbætur, hið rétta er að margir hafa skráð sig atvinnulausa, en þeirra réttur skapast ekki fyrr en uppsagnarfrestur starfsmanna er útrunninn og/eða fyrirtækið fer í gjaldþrot,“ segir Vilhjálmur. „Staða starfsfólks Ísfisks er skelfileg og hún er ömurleg, en fólkið hefur ekki fengið nein laun greidd í rúma tvo mánuði fyrir utan 50.000 kr. inn á greiðslu fyrir um hálfum mánuði síðan eða svo,“ bætir hann við. „Þessi staða er alls ekki boðleg stundinni lengur og hefur Verkalýsðfélag Akraness komið þeim skilaboðum ítrekað á framfæri við forsvarsmenn fyrirtækisins.“

Segir Vilhjálmur að VLFA hafi lýst sig reiðubúið að lána öllum starfsmönnum 250 þúsund krónur með veði í launakröfu sem félagið mun gera fyrir starfsmenn vegna vangreiddra laun á Ábyrðgarsjóðina, líkt og VR gerði fyrir félagsmenn sína sem störfuðu hjá WOW air þegar flugfélagið fór í þrot. Slík lánveiting geti þó ekki átt sér stað fyrr en fyrirtæki verða gjaldþrota.

 

Óboðleg staða

Stjórn Byggðastofnunar tók jákvætt í lánsumsókn Ísfisks um miðjan októbermánuð. Í frétt mbl.is var haft eftir Albert að unnið væri að því að uppfylla ákveðna skilmála sem stofnunin setti sem skilyrði fyrir fyrirgreiðslu.

Vilhjálmur segir lausn á fjárhagsvanda fyrirtækisins hafa dregist allt of lengi. „Alltaf er verið að biðja um lengri frest til að redda fjármálunum. Margoft hefur verið sagt að þetta muni skýrast þennan dag eða þennan og svo gerist ekkert! Á meðan engjast starfsmenn um launalausir, enda hafa þeir ekki fengið laun sín greidd í rúma 60 daga og á meðan ekkert gerist þá eiga starfsmenn ekki rétt á atvinnuleysisgreiðslum og félagið getur ekki lánað þessar 250.000 krónur því veð í kröfur á Ábyrgðarsjóð launa er ekki til staðar þar sem fyrirtækið hefur ekki verið lýst gjaldþrota,“ segir Vilhjálmur. „Þetta er algerlega óboðlegt og ef fyrirtækið er að leita leiða til að rétt af fjárhag fyrirtækisins þá er algert skilyrði að launagreiðslum til starfsmanna verði komið tafarlaust í lag.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir