Ólafur Adólfsson formaður Þróunarfélags Grundartanga. Ljósm. Skessuhorn/mm

Þróunarfélagið vill nýta glatvarma og binda kolefni

Þróunarfélag Grundartanga og Elkem Ísland vinna nú í sameiningu að fjölþættu verkefni sem miðar meðal annars að því að nýta þá umframorku sem verður til við framleiðslu kísílmálms hjá Elkem. Ólafur Adolfsson, bæjarfulltrúi á Akranesi, er formaður stjórnar Þróunarfélags Grundartanga, en að félaginu standa fjögur sveitarfélög á sunnanverðu Vesturlandi auk Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar. Tilgangur félagsins er að sameina krafta sveitarfélaga og fyrirtækja og mynda eitt öflugt atvinnusvæði. Ólafur segir í samtali við Skessuhorn að ýmis verkefni sem kalla mætti græn séu nú til skoðunar, en flest miða þau að bættri nýtingu orku og efnisstrauma. „Við hjá þróunarfélaginu erum í samstarfi við Elkem, en í verksmiðjunni á Grundartanga verða til hátt í 100 MW af varma við kælingu á útblæstri ofnanna. Það má nýta þessa orku með tvennum hætti. Í fyrsta lagi má framleiða um 20-30 MW af rafmagni, en þá standa eftir 60-70 MW í varmaorku. Hægt væri að nýta hana í hitaveitu eða í starfsemi sem krefst mikils varma. Sem dæmi þá þarf Lífland gufu til vinnslu fóðurs í verksmiðju sinni. Þá gæti ýmis sprotastarfsemi nýtt orkuna, svo sem plastendurvinnsla, ylrækt, þörungarækt, laxeldi á landi og áfram mætti telja. Nærtækasti kosturinn felst hins vegar í hitaveitu en hingað til hefur þurft raforku til að hita húsnæði og neysluvatn á svæðinu,“ segir Ólafur.

„Okkar undirbúningsvinna snýst um að nýta þennan glatvarma sem verður til og breyta í nýtanlega orku í stað þess að láta hann fara út í andrúmsloftið. Tæknin er þekkt og í sjálfu sér á þetta ekki að vera mjög flókið. Auk þess að varminn er verðmætur viljum við einnig í framtíðinni fanga og nýta kolefni úr útblæstri verksmiðjunnar. Elkem losar árlega um 450 þúsund tonn af koltvíoxíði sem er milli 11-12% af allri losun hér á landi. Eins og við þekkjum úr tilraunum OR í Hellisheiðarvirkjun er t.d. hægt að binda kolefni í grjót. En það er einnig hægt að nýta þetta kolefni og breyta til dæmis í lífdísel og ef það tækist væri mögulega hægt að keyra allan fiskiskipaflotann á þeirri orku sem framleiða mætti úr kolefninu. Þannig má segja að verðmætin sem við erum með í höndunum séu feiknarlega mikil.“

Ólafur segir að verið sé að leita fjármagns, bæði innanlands og erlendis, í næstu skref við nýtingu varmans og bindingu kolefnis á Grundartanga. „Það er ljóst að þarna liggja gríðarleg tækifæri. Ég bind því miklar vonir við að samstarf þróunarfélagsins, Elkem og fleiri aðila muni leiða eitthvað gott af sér,“ sagði Ólafur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir