Fulltrúar þeirra sem sæmdir voru umhverfisviðurkenningum Akraneskaupstaðar 2019 síðastliðinn miðvikudag. Ljósm. Akraneskausptaðar.

Sæmd umhverfisviðurkenningum

Umhverfisviðurkenningar Akraneskaupstaðar 2019 voru afhent í gær á Bókasafni Akraness. Í lok sumars var auglýst eftir tilnefningum. Dómnefnd fór í vettvangsferðir og tók tilnefningarnar út. Meðal þess sem dómnefnd leit til við mat sitt var fagurfræði, fjölbreytileiki, samtal við almenningsrými og hvort þau vöktu í víðum skilningi athygli á atriðum sem skipta uppbyggingu og framtíð bæjarins máli. Nefndina skipuðu Helena Guttormsdóttir, lektor við LbhÍ, Sindri Birgisson, umhverfisstjóri Akraneskaupstaðar og Ása Katrín Bjarnadóttir, B.S. nemi í umhverfisskipulagi við LbhÍ.

Í kjölfar vinnu þeirra ákvað skipulags- og umhverfisráð að veita viðurkenningar í fjórum flokkum; falleg einbýlishúsalóð, hvatningarverðlaun, samfélagsverðlaun og tré ársins.

Fallegasta einbýlishúsalóðin að mati dómnefndar er hjónanna Þóru Þórðardóttur og Helga Helgasonar að Brekkubraut 25. Í umsögn dómnefndar segir að aðkoman að lóðinni sé opin og í góðu samræmi við stærð hússins. Stiklar, fjölbreyttur lággróður og runnar leiði þann sem fer um garðinn að bakgarðinum, þar sem komið hafi verið fyrir safni gróðurkassa með einkar smekklegum hætti. Þar og í gróðurhúsinu sé stunduð fjölbreytt ræktun grænmetis og kryddjurta. FJölmörg ávaxtatré eru við skjólvegg sem liggur að lóðamörkum bakatil og dvalarsvæði afmarkað frá ræktunarsvæði, en einnig á opinn hátt. Segir dómnefnd að með auðveldu aðgengi, góðri hönnun og fjölbreyttri ræktun vinni eigendur í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun „Garðurinn og nýting hans er gott fordæmi hvernig fagurfræði, nýting dvalarsvæða og matvælaframleiðsa geta farið fram,“ segir í mati dómnefndar.

Tré ársins er hlynur sem stendur í garðinum við Stillholt 11. Að mati dómnefndar er um að ræða fallegt gamalt tré sem sést vel frá götunni. „Trén eru í raun tveir einstaklingar, eru sennilega gróðursett á sjötta áratug síðustu aldar og mynda fallega þyrpingu, gefa götumyndinni ákveðinn karakter og sýna að fjölbreyttar tegundir sem ekki eru mikið notaðar þrífast í bænum,“ segir í matinu.

Samfélagsverðlaunin komu að þessu sinni í hlut leikskólans Akrasels, fyrir endurvinnslustefnu skólans, moltugerð og vinnu með sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Hvatningarverðlaunin komu í hlut Fjólu Guðmundsdóttur og Árna Þórs Traustasonar að Akursbraut 17, eða Sólbakka. Verðlaunin hljóta þau fyrir stórfellda endurnýjun á húsi sem er að mati dómnefndar áberandi í götumyndinni við höfnina og á sér ríka sögu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir