Svipmynd frá bingóinu. Ljósm. þa.

Æskulýðsstarfið í Snæfellsbæ í kærleiksverkefnum

Krakkar í æskulýðsstarfi kirkjunnar í Snæfellsbæ stóðu fyrir kærleiksmaraþoni um síðustu helgi. Tilgangurinn með því var að safna sér fyrir landsmóti ÆSKÞ sem fram fer hér í Ólafsvík um næstu helgi. Höfðu þau í lok september safnað áheitum og fóru svo um síðustu helgi og gerðu ýmis kærleiksverk.

Skiptu krakkarnir sér í hópa og voru meðal annars á þvottaplaninu hjá söluskála ÓK og á Hellu á Hellissandi þar sem þau buðust til þess að þvo bíla hjá þeim sem komu við. Aðrir fóru í verslanirnar Kassann í Ólafsvík og Hraðbúð Hellissands þar sem reynt var að hjálpa, til dæmis með því að bera poka fyrir viðskiptavina út í bíl. Enn önnur fóru á hjúkrunar- og dvalarheimilið Jaðar þar sem þau ræddu við íbúa og jafnvel spiluðu. Að lokinni hugljúfri kvöldguðsþjónustu í Ólafsvíkurkirkju á sunnudagskvöldinu buðu krakkarnir upp á kaffihús, bingó, andlitsmálun og bocchia endurgjaldslaust eins og allt hitt sem boðið var uppá og fengu allir sem þau hittu í kærleiksverkunum og maraþoninu hjarta að gjöf með áletrun.

Fyrirtæki á svæðinu styrktu unglinganna með myndarlegum vinningum fyrir bingóið og var mikil spenna og fjör þar, auk þess stóðu þau fyrir kökubasar í kirkjum sóknanna 6. október síðastliðinn. Hafa alls safnast yfir 280 þúsund krónur vegna landsmótsins og enn hægt að styrkja þau með því að leggja inn á reikning 0194 – 05 – 401623, kt. 430111-0350. Vildi æskulýðsfélagið fá að koma á framfæri þakklæti fyrir stuðninginn og velvildina þetta kemur að góðum notum um næstu helgi en þá verður landsmót ÆSKÞ haldið í þriðja sinn í Ólafsvík en það var áður haldið í Ólafsvík árin 2003 og 2008. Mun því fyllast bærinn af ungu fólki en um 250 manns verða á mótinu þar af 28 unglingar frá Snæfellsbæ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir