Latibær var á Rökkurdögum árið 2017. Ljósm. úr safni.

Bæjar- og héraðshátíðir framundan á Vesturlandi

Tvær bæjarhátíðir eru framundan á Vesturlandi auk þess sem Rökkurdagar standa nú yfir í Grundarfirði. Hátíðin Vökudagar hefst á Akranesi á morgun, fimmtudaginn 24. október, og á föstudaginn hefst Haustfagnaður í Dölum. Rökkurdagar í Grundarfirði hófust síðastliðinn föstudag með menningarmóti nemenda í Grunnskóla Grundarfjarðar. Hátíðin stendur fram yfir næstkomandi helgi en meðal þess sem boðið verður upp á næstu daga er haustmarkaður Kvenfélagsins Gleym-mér-ey, fyrirlesturinn „Þegar kona brotnar“ með Sirrý Arnardóttur, Veturnáttablót á Bjargarsteini og dansleikur í Samkomuhúsinu með hljómsveitinni Sue, svo fátt eitt sé nefnt.

Vökudagar á Akranesi hefjast með opnun á listasýningu Tinnu Royal í Galleríi Bjarna Þórs kl. 16:00 á fimmtudaginn. Þá verða opnaðar listsýningar víða um bæinn, boðið upp á jóga á Café Kaju og tónleikar verða haldnir um allan bæ dagana sem hátíðin stendur yfir, til 3. nóvember. Búast má við miklu lífi í bænum þessa daga og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Haustfagnaður í Dölum hefst með hrýtasýningu á Stóra-Vatnshorni í Haukadal á föstudaginn kl. 18:00. Þá verður önnur hrútasýning á Breiðabólsstað á Fellsstönd daginn eftir þar sem ennig verður handverksmarkaður. Á laugardagskvöldinu verður árleg sviðaveisla og hagyrðingakvöld í Dalabúð áður en Greifarnir stíga á svið og spila fyrir dansi fram á nótt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir