María Gunnarsdóttir með fyrsta flugulaxinn sinn úr Litlu Þverá í Borgarfirði.

Stórrigningar hleyptu lífi í veiðina á síðustu metrunum

Stórrigningar hleyptu aðeins lífi í veiðina síðustu vikuna, en lítið var samt að koma af nýjum laxi í árnar sem enn er veitt í. Veiðimenn fengu fínar tökur af laxi sem greinilega hafði frískast við aukið súrefni. ,,Það var gaman að fá fyrsta flugulaxinn í Fluguklöppinni í Litlu Þverá,“ sagði María Gunnarsdóttir en hún veiddi tíunda laxinn sem kemur úr ánni í sumar og fiskurinn hjá henni tók svarta Frances, þyngda.

Veiðin hefur tekið kipp í Þveránni og núna eru komnir 1160 laxar á land sem bætir aðeins upp sumarið. Norðurá gaf aðeins 577 laxa þetta sumarið. Siggi Valla úr Kelfavík var að veiða þar undir það síðasta, rétt áður en áin fór í kakó í úrhellinu og flóðunum sem því fylgdu. „Ég fékk fiska áður en himnarnir opnuðust,“ sagði Siggi Valla um veiðina og vatnið.

,,Við fengum laxa í Hvolsá og Staðarhólsá, enda hefur rignt verulega og vatnið er flott þessa dagana í ánum,“ sagði Sæmundur Kristjánsson sem var að veiða í Saurbænum og fékk í soðið og ríflega það.

,,Mikið vatn er í Grímsá, svaka mikið,“ sögðu veiðimenn sem staddir voru við ána um helgina. Og það voru orð að sönnu. Áin flæddi víða upp á bakka sína, en veiðimenn náðu engu að síður að krækja í fisk. Grímsá hefur nú gefið 666 laxa.

,,Straumfjarðará endaði í 169 löxum,“ sagði Ingimundur Bergsson hjá Stangveiðifélagi Reykjavíkur. Það er helmingi minni veiði en á sama tíma fyrir ári. En veiðin batnaði þar líkt og víða annarsstaðar þegar tók að rigna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir