Jin Zhijian sendiherra Kína og Pauline McCarthy í hópi blómlegra kvenna. Ljósm. Skessuhorn/mm

Þjóðahátíð stendur nú yfir á Akranesi

Klukkan 14 í dag hófst Þjóðahátíð Vesturlands í íþróttahúsinu á Jaðarsbökkum á Akranesi, en dagskránni lýkur klukkan 17. Sem fyrr er það Félag nýrra Íslendinga sem stendur fyrir hátíðinni undir forystu Pauline McCarthy formanns félagsins. Dagskráin hófst með því að Bára Daðadóttir bæjarfulltrúi á Akranesi bauð gesti velkomna og setti hátíðina. Kynnir er Guðrún Vala Elísdóttir og stýrir hún dagskrá.

Jin Zhijian sendiherra Kína á Íslandi ávarpaði gesti en því næst tók við fjöldi dans- og söngatriða. Boðið var upp á búlgarskan dans, thai dans, spænskan og filippeyskan söng, rapp, bollywood dans og fleira. Sérstakur gestur, Mahendra Patel, kom frá Englandi og hélt í gær námskeið í afrískum og indverskum trommuslætti. Var afrekstur námskeiðsins kynntur á hátíðinni í dag. Fulltrúar tuttugu landa kynna menningu sína í mat og drykk en flestir sýnenda eru búsettir á Vesturlandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir