Verðlaunahafar ásamt fulltrúum Borgarbyggðar. F.v. Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri, Hilmir Auðunsson frá HB pípulögnum ehf, Bjarney Ingdóttir á Arnarkletti 19, Sturlaugur Arnar Kristinsson, Kolbrún Sveinsdóttir á Norðurreykjum og Margrét Vagnsdóttir formaður umhverfis- og landbúnaðarnefndar Borgarbyggðar. Ljósm. mm.

Umhverfisverðlaun Borgarbyggðar 2019

Löng hefð er fyrir því að sveitarfélagið Borgarbyggð veiti umhverfisverðlaun þar sem veittar eru viðurkenningar fyrir snyrtimennsku. Hafa verðlaunin verið afhent á Sauðamessu að hausti en þar sem hátíðin hefur nú lagst af var boðað til sérstakrar móttöku í Ráðhúsi Borgarbyggðar síðastliðinn fimmtudag. Dagskránni stýrðu þau Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri og Margrét Vagnsdóttir formaður umhverfis- og landbúnaðarnefndar, en nefndin hefur það hlutskipti að skoða tilnefnda staði og velja þá sem hlytu verðlaun. Auglýst var eftir tilefningum um snyrtilega garða, bændabýli og atvinnuhúsnæði. Auk þess var að venju veitt sérstök viðurkenning til einstaklings. Verðlaunahafar fengu að launum viðurkennignarskjal, ræktarlega birkiplöntu frá Grenigerði auk glaðnings úr Ljómalind í Borgarnesi. Þá fékk snyrtilegasta bændabýlið sérstakt skilti sem festa á við bæjarskiltið við heimreið að bænum.

Stulli veitir afburða þjónustu

Sérstök umhverfisverðlaun komu í hlut Sturlaugs Arnars Kristinssonar, bílstjóra á sorpbíl Íslenska gámafélagsins. Starf hans er að aka um sveitir og safna ýmist sorpi eða flokkuðum úrgangi til endurvinnslu. Hefur Sturlaugur reynst bændum og búaliði einstaklega hjálpsamur og veitt afburða þjónustu í störfum sínum. Sturlaugur er fæddur og uppalinn á Kleifum í Gilsfirði, en hefur búið í Borgarnesi frá 16 ára aldri.

Norðurreykir í Hálsasveit

Snyrtilegasta bændabýlið er Norðurreykir í Hálsasveit þar sem hjónin Kolbrún Sveinsdóttir og Bjartmar Hannesson reka kúabú. Hafa þau byggt jörð sína myndarlega upp og snyrtimennska er hvarvetna innan sem utan dyra. Í garði við íbúarhúsið eru eldri uppgerðar heyvinnuvélar sem setja skemmtilegan svip.

HP pípulagnir í Brákarey

Snyrtilegasta atvinnuhúsnæðið var valið verkstæðishús HP pípulagna við Brákarbraut 18-20 í Borgarnesi. HP pípulagnir reka þeir Hilmir Auðundsson og Páll Sigurðsson. Fyrirtækið er rekið í endarými iðnaðarhúsnæðis í Brákarey og hóf starfsemi þar fyrir nokkrum árum.

Arnarklettur 19 í Borgarnesi

Loks var styrtilegasta lóð við íbúðarhúsnæði valin Arnarklettur 19 í Borgarnesi, endaíbúð í þriggja íbúða raðhúsi í Bjargslandi. Þar búa Bjarney Ingadóttir og Sigurður Daníelsson. Hús og lóð ber fagurt vitni snyrtimennsku og mikillar vinnu við umhirðu. Garðurinn er vel gróinn og þar er ræktað grænmeti í vermireitum, en sumarblóm og fjölær í bland við fallegan trjágróður í beðum við húsið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir