Á hlaðinu framan við slökkvistöðina í Reykholti hefur Ljósleiðarinn komið upp lager af ljósleiðararörum á keflum. Á keflunum sem þarna sjást eru tugir ef ekki hundruð kílómetra af missverum rörum sem bíða þess að verð plægð í jörðu. Ljósm. Skessuhorn/mm

Ljósleiðaravæða landstærsta sveitarfélag Vesturlands

Lagning ljósleiðara um dreifbýli í Borgarbyggð er nú hafin, en dreifbýli sveitarfélagsins er það eina á Vesturlandi sem eftir á að koma ljósleiðara um. Sökum landstærðar er nú búið að skipta verkefninu niður í 18 sjálfstæða áfanga. Hugsunin með áfangaskiptingu er margþætt og m.a. til þess að íbúar geti fylgst með framkvæmdum, afmörkun hvers svæðis og ekki síst hvenær þeir geta vænst þess að röðin komi að þeim. Upplýsingar um áfangaskiptinguna, hvaða hlutverki hún gegnir og fleira henni tengdri má finna á upplýsingasíðu verkefnisins, á vefslóðinni ljósborg.net.

Verktakar hafa í liðinni viku undirbúið sig fyrir að hefja jarðvinnu og hófst plæging ljósleiðara við Kljáfoss. „Plógurinn er nú skriðinn af stað og þar með stórt skref stigið,“ segir á upplýsingasíðu verkefnisins. Með lagningu á áfanga fimm, sem liggur frá Kljáfossi að Varmalandi, er markmiðið að tengja saman tvær af kerfismiðjum auk þess að tengja grunnskólana að Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. Áætlað er að vinna við áfanga 5 taki um 5-7 vikur. Áfangar 2, 3 og 4 eru næstir í áfanga uppröðun verktakans. Heimsóknir til landeigenda og íbúa í áföngum 2, 3 og 4  standa nú yfir.

Stefnt er að því að skólarnir á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum verði tengdir fyrir næstu áramót. Þá verður m.a. unnið að tengingum í Reykholtsdal, Hálsasveit neðsta hluta Hvítársíðu og bæi í Stafholtungum meðfram stofnæðinni, sem merktir eru á vinnukort verkefnisins sem áfangar 2, 3 og 4. „Sá fyrirvari er hafður á verklagi að vinnuflokkar geta fært sig til eftir aðstæðum, til dæmis ef frost hleypur djúpt í jörðu. Veðurfar í vetur getur þannig haft áhrif á verkskipulag,“ segir Gunnlaugur A Júlíusson sveitarstjóri í samtali við Skessuhorn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira