ÍA stelpur fagna hér sigurmarkinu frá Bryndísi Rún. Ljósm. Guðmundur Bjarki Halldórsson.

Skagastelpur með kærkominn sigur á heimavelli

Skagastelpur unnu kærkominn á ÍR á í gærkveldi þegar liðin áttust við í 13. umferð fyrstu deild kvenna í knattspyrnu. Bæði lið eru að berjast í neðri hluta deildarinnar og var því búist við hörku viðureign á milli liðanna. Leikið var á Akranesvelli.

ÍA byrjaði leikinn af krafti og sótti ítrekað á gestina úr Breiðholtinu sem náðu varla að komast yfir á vallarhelming þeirra gulklæddu. Ekki gekk þó fyrir Skagastúlkur að koma boltanum innfyrir stangirnar og gengu liðin markalaus til klefa í hálfleik.

ÍA hélt uppteknum hætti í síðari hálfeik og keyrði vel á ÍR. Það dró svo loks til tíðinda fyrir Akranesliðið á 55. mínútu. Skagastelpur fengu horn eftir mikinn darraðadans í teig gestanna. Hornspyrnan rataði á Bryndísi Rún Þórólfsdóttur sem stangaði boltann fast í netið og kom þar með sínum stúlkum yfir í 1-0. Litlu mátti muna að ÍA bætti við öðru markinu rétt undir lok venjulegs leiktíma, en ekki gerðist það. Lokaniðurstaða því 1-0 Akranesliðinu í vil.

Skagastelpur fengu kærkomin þrjú stig í farteskið en þær hafa ekki sigrað leik síðan 19. júní í sumar. Með sigrinum færa þær sig upp um tvö sæti, úr því áttunda í það sjötta og eru nú með 16 stig eftir 13 umferðir. Útlitið er hins vegar grátt fyrir ÍR-liðið sem er einungis með eitt stig í neðsta sæti deildarinnar. Fimm leikir eru eftir af Íslandsmótinu en næstkomandi mánudag fer ÍA á Ásvelli í Hafnarfirði og keppir gegn Haukum í næstu umferð. Leikurinn hefst klukkan 18:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira