Tryggvi Hrafn skoraði eina mark Skagamanna í leiknum. Ljósm. úr safni.

Þriðji tapleikur ÍA í röð

ÍA tapaði fyrir Breiðabliki í 16. umferð Pepsi Max deildar karla þegar liðin mættust á Akranesvelli í gær. Er þetta þriðja tap Skagamanna í röð sem færast nær neðri hluta deildarinnar eftir fantagóða byrjun á tímabilinu. Gestirnir komu heimamönnum í opna skjöldu strax í byrjun með því að skora tvö mörk á fyrst sjö mínútum leiksins. Á fjórðu mínútu náðu Blikar að tæta Skagamenn í sig þar sem Viktor Karl Einarsson komst einn í gegn og átti skot á mark sem Árni Snær Ólafsson varði frábærlega í marki Skagamanna. Þá var það Thomas Mikkelsen sem tók frákastið og lagði boltann í hornið og kom Breiðabliki yfir. Þremur mínútum síðar skoraði Höskuldur Gunnlaugsson annað mark gestanna. Hann fékk boltann fyrir utan teig Skagamanna og átti þrumufleig í samskeytin og inn. Gjörsamlega óverjandi fyrir Árna Snæ í marki þeirra gulklæddu. Á tíundu mínútu var svo dæmt víti á Breiðablik eftir mikinn darraðardans í eigin teig. Tryggvi Hrafn Haraldsson fór á punktinn og skilaði boltanum af öryggi í markið og minnkaði muninn í eitt mark. Mikið fjör var í leiknum og bæði lið að ógna marki andstæðinganna fram að hálfleik en ekki komu fleiri mörk og staðan 1-2 Breiðabliki í vil þegar gengið var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik héldu liðin uppteknum hætti og voru áræðin í sínum sóknaraðgerðum. Ekki vildi boltinn þó inn og lokaniðurstaðan sigur Blika sem komnir eru í öruggt annað sæti í deildinni.

Þetta er þriðji tapleikur í röð hjá ÍA og þar á undan voru tvö jafntefli. Skagamenn hafa ekki unnið leik síðan í byrjun júlí. ÍA er nú komið úr fimmta sæti niður í sjöunda sæti með 22 stig eftir 16 umferðir. Næsti leikur þeirra gulklæddu verður gegn Stjörnumönnum í Garðabæ næstkomandi sunnudag og hefst klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira