Undir lok leiks fékk James Dale að líta rauða spjaldið. Ljósm. af.

Fjórði jafnteflisleikur Víkings í röð

Víkingur Ólafsvík gerði enn eitt jafnteflið þegar liðið tók á móti Leiknir R. á Ólafsvíkurvelli í 16. umferð fyrstu deildar karla í knattspyrnu á föstudaginn. Heimamenn byrjuðu mun sterkari og sóttu hart að gestunum frá Breiðholti á upphafsmínútunum. Það voru hins vegar Leiknismenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins. Á 27. mínútu átti Árni Elvar Árnason fantagott skot sem rataði örugglega í mark Ólsara, eftir góðan undirbúning liðsfélaga sinna. Heimamenn létu mark Leiknis ekki taka sig úr jafnvægi og jöfnuðu á 41. mínútu. Vidmar Miha átti fína hornspyrnu inn í teig Leiknis þar sem Guðmundur Magnússon stangaði boltann fast í netið. Litlu mátti muna að Ólsarar bættu við marki áður en flautað var til hálfleiks en ekki var lukkan með þeim að þessu sinni og liðin gengu jöfn til klefa.

Víkingar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik. Þeir voru ákveðnari og héldu áfram að sækja á mark gestanna sem þurftu að hafa sig alla við. Ekki komu þó fleiri mörk í leiknum og skildu liðin því jöfn.

Leikurinn er fjórða jafnteflið í röð hjá Ólafsvíkurliðinu sem nauðsynlega þarf fleiri stig til að halda í við efstu liðin í deildinni. Þeir eru nú í fimmta sæti með 24 stig eftir 16 umferðir, tveimur stigum á eftir Leikni R. sem er í fjórða sætinu. Víkingur Ó. heimsækir Reykjanesið í næstu umferð og spilar gegn Keflavík á föstudaginn kl. 18.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Hart á hrossum

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til... Lesa meira