Veiðihúsið við Þverá í Borgarfirði.

Fordæmalausar aðstæður í laxveiðinni

„Hvað laxveiði varðar þetta veiðitímabilið þá er það sem er að eiga sér stað einfaldlega fordæmalaust og ástand sumsstaðar með þeim hætti að líklega væri best að sleppa öllum laxi eða hreinlega hlífa fyrir veiði. Reyndar gerist það af sjálfu sér í þeim tilvikum þar sem hreinlega ekki veiðist sökum aðstæðna,“ segir í frétt á vef Landssambands veiðifélaga síðastliðinn miðvikudag. „Sem fyrr eru víða aðstæður til veiða erfiðar sökum bágs vatnsbúskapar og eru það einna helst dragárnar sem líða fyrir úrkomuleysið og engan forða en sá fór því miður í hlýindum, úrkomu og vatnavöxtum í apríl.“ Auk þess eru margar jökulár óvenju mikið litaðar af leir þessa dagana og skyggni af þeim sökum slæmt og því erfiðar aðstæður til veiða. Hlýindi og mikil sólbráð er að leysa eldri lög úr jöklunum með tilheyrandi óhreinindum. Í sumum vatnakerfum er jökulvatn hluti af því vatnasviði sem fæðir þau og getur haft töluverð áhrif þegar hlutur þess eykst og þá sér í lagi ef þegar mikill leirlitað.

Þá segir á vef LV að ágætt sé að hafa tilmæli Hafrannsóknastofnunar í huga um að veiðimenn og veiðiréttarhafar gæti hófs við veiðar og sleppi sem allra flestum löxum sem veiðast til að hrygningarstofn haustsins verði sem stærstur. Annars er hætta á að sá seiðaárgangur sem undan þeim kemur verði einnig smár og veiðiþol laxastofna minnki enn frekar.

Engar af vestlensku laxveiðiánum eru í efstu sætum í laxveiðinni það sem af er sumri. Þverá og Kjarará í Borgarfirði eru í sjöunda sæti, en þar höfðu 470 laxar komið á önglana 7. ágúst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir