Svipmynd úr safni Skessuhorns af Laxfossi í Norðurá.

Veiðin í Norðurá tíundi hluti þess sem var í fyrra

Flestar laxveiðár á Vesturlandi eru í sumar langt undir meðalveiði, sumar vart svipur hjá sjón. Veiðin er snöggtum skárri í ánum á Norðurlandi og Rangánum á Suðurlandi. Þurrkar með tilheyrandi vatnsleysi, auk lélegra árganga í laxabúskapnum, eru stærsta ástæðan fyrir lítilli veiði á Vesturlandi. Veiðitölur sem Landssamband veiðifélaga gefur út vikulega vitna um erfiðar aðstæður til veiða. Úr Norðurá í Borgarfirði voru komnir 83 laxar á land á miðvikudaginn, sem er tíundi hluti þess sem var á sama tíma í fyrrasumar. Líklega hefur upphaf veiðitímabilsins aldrei verið jafn slæmt þar og nú. Úr Þverá og Kjarará voru komnir 140 laxar á land á miðvikudaginn, en vikuveiðin var 49 laxar svo heldur hefur glæðst þar yfir. Í Haffjarðará höfðu 133 laxar veiðst, en ársveiðin þar í fyrrasumar var 1545 laxar.

Urriðafoss í Þjórsá er efst á lista íslensku ánna með 502 laxa síðastliðinn miðvikudag, en vikuveiðin þar var 75 laxar. Þar sem þetta er fremur nýtt stangveiðisvæði er ekki hægt að bera saman mörg ár aftur í tímann.

Líkar þetta

Fleiri fréttir