Ljósm. úr safni/ af.

Fundu sig ekki suður með sjó

Ólafsvíkingar áttu ekki góðan dag þegar þeir töpuðu úti gegn Njarðvíkingum í elleftu umferð 1. deildar karla í knattsyrnu á í gær, 3-0. Fyrir leikinn höfðu heimamenn tapað sjö leikjum í röð en gengi Víkings Ó. hefur verið upp og ofan undanfarnar vikur.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og voru sterkari í fyrri hálfleik. Ólafsvíkingar fengu dauðafæri eftir hálfrar klukkustundar leik en Brynjar Atli Bragason varði frá Sallieu Tarawallie sem kominn var einn í gegnum vörnina. Njarðvíkingar fengu líka sín tækifæri. Skömmu síðar komst Stefán Birgir einn í gegnum vörn Ólafsvíkinga en þrumaði boltanum hátt yfir markið.

Á 40. mínútu komust Njarðvíkingar síðan yfir. Mikill atgangur skapaðist í teig Ólafsvíkinga eftir hornspyrnu en endaði með því að Ivan Prskalo potaði boltanum yfir línuna. Kenneth Hogg bætti síðan öðru marki við fyrir heimamenn í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Hilmar Andrew McShane átti þá sendingu ynn fyrir vörnina á Kenneth sem gerði vel og þrumaði boltanum upp í þaknetið úr þröngu færi. Staðan 2-0 í hálfleik.

Ólafsvíkingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og voru nálægt því að skora með þrumuskoti úr aukaspyrnu á 48. mínútu. Aðeins mínútu síðar fékk Emmanuel Keke síðan rautt spjald fyrir að brjóta á Ivan Prskalo sem aftasti varnarmaður. Liðsmenn Víkins orðnir einum færri inni á vellinum og útlitið ekki björgulegt fyrir Ólafsvíkinga.

Það var síðan á 58. mínútu sem Njarðvíkingar skoruðu þriðja mark leiksins. Kenneth fékk laglega sendingu inn fyrir vörnina, lék á Franko Lalic í markinu og lagði boltann í netið.

Leikurinn róaðist töluvert eftir þriðja mark heimamanna og fjaraði hægt og rólega út. Lokatölur 3-0, Njarðvíkingum í vil.

Víkingur Ó. hefur 17 stig í fimmta sæti deildarinnar, stigi meira en Keflavík í sætinu fyrir neðan en þremur stigum minna en Fram og Þór í sætunum fyrir ofan. Næst leikur liðið gegn Haukum í Ólafsvík þriðjudaginn 16. júlí næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir