Svipmynd úr Sláturhúsi Vesturlands í Brákarey. Ljósm. úr safni.

Bændur geta vænst hærra verðs fyrir dilkakjöt í haust

Frá 2017 hafa sauðfjárbændur þurft að sætta sig við verulega raunlækkað afurðaverðs vegna sölutregðu og offramleiðslu. Nú er hvorugt til staðar. Sala lambakjöts hefur aukist á þessu ári á sama tíma og dregið hefur úr framleiðslu. Erlendir markaðir hafa opnast og landinn velur sem fyrr lambakjöt á grillið. Ýmsir kjöthlutar, eins og hryggir, eru því ófáanlegir í verslunum.

Í ljósi þessa hefur Norðlenska gefið út verðskrá fyrir komandi dilkaslátrun í haust þar sem gert er ráð fyrir 15% hækkun afurðaverðs til bænda. „Verðskráin er talsvert breytt frá fyrra ári og er það mat Norðlenska að hún endurspegli enn betur raunvirði gerðar og fituflokka en verðskrá síðasta árs. Stefna Norðlenska er sú að þoka verðskrám í átt að hlutfallslegu raunvirði innleggs fyrir sölu og vinnslu og er þessi breyting liður í því. Félagið hvetur bændur til að kynna sér verðskrána með þetta í huga. Með því lágmarksverði sem hér er kynnt hækkar meðalverð til innleggjenda um rúm 15% frá árinu 2018, sé tekið mið af raun innleggi til félagsins árið 2018,“ segir í tilkynningu frá Norðlenska. Greitt er yfirverð fyrir innlagt kjöt frá viku 35 en það stiglækkar og lýkur í viku 39.

Sláturfélag Suðurlands tilkynnti í lok júní um 8% hækkun afurðaverðs til bænda. [Athuga: leiðrétt, var sagt 5% hækkun í fréttinni upphaflega.] Þá er von á að aðrir sláturleyfishafar tilkynni um verðbreytingar á næstu dögum. Miðað við tilkynningar þessara tveggja fyrirtækja er engu að síður langur vegur frá að bændur fái sama raunverð fyrir lambakjöt og þeir fengu t.d. haustið 2016. Verð á algengum flokki, R3 í viku 40, er samkvæmt vef Sláturfélags Suðurlands 421 króna fyrir kílóið. Hjá Norðlenska fá bændur í Búsæld 425 kr. fyrir kíló af sama flokki, en bændur utan Búsældar 408 kr/kg. Aðrir sláturleyfishafar höfðu ekki tilkynnt um sláturverð í haust þegar þessi frétt var unnin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir