Fjölmenni á Brekkusöng. Ljósm. af.

Fjölmenn Ólafsvíkurvaka

Fjölmenni var á Ólafsvíkurvökunni sem fram fór um helgina í blíðskaparveðri og var margt i boði fyrir alla aldurshópa. Hátíðin hófst á föstudaginn með Crossfit fyrir börnin og Hrafn Jökulsson stóð fyrir skákkennslu. Dorgveiðikeppni var einnig í boði og þar á eftir var boðið upp á grillaðar pylsur. Fjörinu var síðan haldið áfram í Sjómannagarðinum með lifandi tónlist í flutningi Lenu Örvarsdóttur og Trausta Leó Gunnarssonar.

Á laugardaginn náði svo hátíðin hámarki með fjölbreyttri dagskrá með golfmóti, skákmóti og var margt í boði á Þorgrímspalli þar sem meðal annars Alda Dís steig á stokk og flutti nokkur lög. Soni töframaður sýndi listir sínar, danshópurinn Pæjurnar dansaði fyrir gesti og herra Hnetusmjör skemmti auk þess sem Vargurinn Snorri Rafnsson kynnti sinn útbúnað og hunda sem hann notar í veiðimennsku. BMX hópurinn BMX bros sýndi listir sínar.

Á laugardagskvöldinu mættust svo hverfin í bænum saman í Sjómannagarðinum í sínum litum og fluttu skemmtiatriði og þar fór gula hverfið með sigur af Hólmi, ásamt því að vera valið sem best skreytta hverfið. Tónlistarmaðurinn Jón Sigurðsson sá um brekkusöng ásamt því að Sigríður Beinteinsdóttir og Grétar Örvarsson komu fram, en dagskránni lauk svo með stórdansleik í Klifi þar sem Stjórnin spilaði langt fram eftir nóttu.

Myndasyrpu frá Ólafsvíkurvöku má sjá í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir