Lánlausir Skallar

Skallagrímur þurfti að sætta sig við eins marks tap gegn Vængjum Júpiters þegar liðin mættust á gervigrasvellinum í Grafarvogi á föstudaginn. Var þessi leikur liður í tíðundu umferð þriðju deildar karla.

Segja má að einbeitingin hafi verið víðs fjarri hjá gestunum úr Borgarnesi í upphafi leiks því heimamenn skoruðu strax á 3. mínútu þegar Sigurjón Már Markússon lagði boltann í net Skallagrímsmanna. Dugði þetta eina mark til sigurs og fóru Vængir Júpiters með stigin þrjú í farteskinu.

Lítið gengur hjá Skallagrímsmönnum að kalla fram sigur í leikjum sínum það sem af er tímabili. Þeir sitja sem fyrr í næstneðsta sæti með sex stig eftir tíu umferðir, tveimur stigum meira en KH sem vermir botnsætið. Næsti leikur Skallagrímsmanna verður í Borgarnesi á morgun, miðvikudag, gegn Reyni S. og hefst leikurinn klukkan 20:00 á Skallagrímsvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir