Víkingur Ó. nældi sér í þrjú stig í 10. umferð. Ljósm. af.

Víkingur Ó. færir sig upp um þrjú sæti

Víkingur Ó. sigraði Aftureldingu 2-0 í tíundu umferð fyrstu deildar karla á föstudag. Leikið var á Ólafsvíkurvelli.

Mosfellingar byrjuðu leikinn ákafir og voru meira með boltann á upphafsmínútunum. Ólsarar voru þó hvergi að gefa eftir og mættu gestunum á pari í baráttunni. Hvorugt liðið náði að skila boltanum í netið og voru þau jöfn þegar flautað var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik byrjuðu heimamenn örlítið betur en gestirnir og voru sprækir. Eftir fimm mínútna spil átti Víkingur skyndisókn sem endaði með dúndurskoti í þverslánna. Var þetta eins og forréttur fyrir áhorfendur því Víkingur skoraði fjórum mínútum síðar og komst yfir á 54. mínútu. Sallieu Capay Tarawallie átti góða stoðsendingu á Harley Willard sem skilaði boltanum í netið.

Voru heimamenn allt í öllu eftir markið og þurfti Afturelding að hafa sig alla við að verjast. Annað mark Víkings skoraði svo Sallieu á 62. mínútu þegar hann fylgdi boltanum ákveðinn eftir, í mark gestanna. Afturelding átti engin svör og náðu ekki að skapa sér almennileg marktækifæri það sem eftir lifði leik. Lokatölur voru því 2-0 Víkingi í vil.

Með sigrinum stökkva Ólsarar úr sjöunda sæti í það fjórða og eru nú með 17 stig eftir tíu umferðir, jafn mörg stiga og Fram í 5. sæti.

Næsti leikur Víking Ó. verður gegn Njarðvík á Reykjanesinu á fimmtudag og hefst leikurinn klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir