Káramenn fagna hér einu af mörkunum fjórum. Ljósm. gbh.

Kári fékk dýrmæt stig

Kári vann öruggan sigur á botnliði Tindastóls þegar liðin mættust í 10. umferð í annarri deild karla í Akraneshöllinni í gærkveldi. Er þetta þriðji sigur Káramanna það sem af er af tímabilinu og dýrmæt stig í vegarnesti hjá þeim félögum í botnbaráttunni, nú þegar líða fer á seinni hluta Íslandsmótsins.

Skagamenn byrjuðu leikinn af krafti og gáfu tóninn á 19. mínútu þegar Guðfinnur Þór Leósson skoraði fyrsta mark leiksins og kom Kára í framsætið. Guðfinnur var svo aftur á ferðinni rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar hann bætti við öðru marki á 41. mínútu. Skagamenn voru alls ekki saddir fyrir hléið því Andri Júlíusson bætti við þriðja markinu í uppbótartíma og kom Kára í 3-0 fyrir hálfleik.

Gestirnir úr Skagafirði vöknuðu til lífsins í síðari hálfleik og hertu varnarlínu sína til muna. Ekki gekk þó hjá Tindastóli að skapa almennileg marktækifæri og voru Káramenn allt í öllu. Það var svo á 76. mínútu sem heimamenn náðu að ryðjast í gegnum varnir gestanna þegar Hilmar Halldórsson bætti við fjórða marki Skagamanna. Tindastóll átti engin svör og því öruggur 4-0 sigur Kára staðreynd.

Með sigrinum bætir Kári við sig þremur dýrmætum stigum en situr þó ennþá í næstneðsta sæti í deildinni. Næsti leikur Kára verður á Selfossi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir