Fjölmargir lögðu leið sína á Snæfellsjökul um sumarsólstöður

Föstudagskvöldið 21. júní síðastliðið voru fjölmargir sem fóru í kvöldgöngu enda sólin að setjast í seinna lagi á þessum lengsta degi ársins. Stór hópur fólks gekk á Snæfellsjökul enda fáir staðir betri til að njóta sólsetursins en uppi á toppi jökulsins. Tómas Freyr Kristjánsson fréttaritari Skessuhorns þáði þó far með snjótroðara upp á topp en fyrirtækið Snæfellsnes Excursions var með skipulagða ferð til að njóta sumarsólstöðunnar á þessum hæsta tindi Snæfellsnesfjallgarðsins.

Aðstæður voru allar eins og best verður á kosið. Veður var milt og skýjafarið stórbrotið þar sem nyrðri hluti Snæfellsness var undir skýjahulu en syðri hlutinn heiðskýr. Skýjabakkinn var svo að reyna að læða sér niður í Staðarsveitina og Breiðuvík en án árangurs. Ferðalangar á toppi jökulsins fylgdust svo með þessu sjónarspili er þeir horfðu niður á skýin og á móti sólinni þar sem hún skreið eftir sjóndeildarhringnum yfir Vestfjörðum. Þó að það hafi verið kalt á toppnum þá var þetta algjörlega þess virði enda magnað sjónarspil.

Líkar þetta

Fleiri fréttir