ÍA tapaði gegn Þrótti R. Ljósm. gbh.

ÍA tapaði í toppbaráttuleik

Skagastelpur þurftu að sætta sig við tap gegn toppliði Þróttar R. þegar liðin mættust í sjöttu umferð fyrstu deildar kvenna í Laugardalnum í gærkvöldi. Munaði einungis einu stigi á liðunum fyrir viðureignina og mátti því búast við hörku leik.

Það voru heimastúlkur sem byrjuðu mun betur og voru staðráðnar í að endurtaka ekki leikinn frá síðustu viðureign liðanna þegar ÍA sló Þrótt út úr 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Það var strax á 8. mínútu sem Þróttarar komust yfir. Linda Líf Boama fékk boltann í teig Skagastelpna, náði að snúa sér laglega af varnarmanni ÍA og skilaði boltanum hægra megin við Tori Jeanne í marki gestanna. Reykvíkingar héldu áfram að vera grimmar sóknarlega og ÍA-stelpur þurftu að hafa sig allar við til að stoppa ákefð Þróttar. Heimastúlkur bættu svo við sínu öðru marki á 28. mínútu. Enn og aftur var Linda Líf að skapa vandræði fyrir ÍA. Hún átti lúmska sendingu inn á Lauren Wade sem kláraði færið snyrtilega. 2-0 fyrir Þrótti R. þegar flautað var til hálfleiks.

Reykvíkingar héldu sama krafti í síðari hálfleik, fengu dauðafæri strax á 47. mínútu og gáfu þannig tóninn. Gestirnir af Skaganum reyndu í kjölfarið að þjappa varnir sínar til að stoppa áræðni heimastúlkna. Það dugði þó skammt því Linda Líf fékk boltann enn og aftur fyrir utan teig ÍA, fann Lauren Wade enn og aftur, sem skilaði boltanum í marki. 3-0 fyrir Þrótti R.

Öll barátta og sigurvilji var rokin úr Skagastelpum sem náðu sér aldrei á strik í leiknum. Þróttur R. því með sannfærandi 3-0 sigur og tryggði stöðu sína í efsta sæti í deildinni. ÍA dettur niður í þriðja sæti eftir tapið á meðan FH-ingar færa sig í annað sætið. Munar tveimur stigum á liðunum.

Næsti leikur ÍA er í Mjólkurbikarnum gegn Fylki í 8-liða úrslitum. Leikurinn verður spilaður á Akranesvelli á föstudaginn og hefst klukkan 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir