Hrefna Bryndís Jónsdóttir framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands. Að baki henni sést í stálið, margra metra háan vegg af sorpi og vinnuvélar ofan á haugnum til að slétta og þjappa. Ljósm. Skessuhorn/mm

Í Fíflholtum hefur sorp nú verið urðað í tvo áratugi

Sveitarfélögin á Vesturlandi eiga jörðina Fíflholt á Mýrum. Keyptu hana árið 1997 eftir að búskap hafði þar verið hætt og hófu urðun sorps. Áður en rekstur þessi hófst var sorpi fargað við ýmsar aðstæður á fjölmörgum stöðum á Vesturlandi, ófullnægjandi urðun eða opinn eldur, kveikt í rusli á bæjum og almennt öll þau mál í ólagi miðað við þær kröfur sem gerðar eru í dag. Flestir fögnuðu því þegar sveitarfélög í landshlutanum tóku höndum saman um að farga sorpi á einum stað við bestu mögulegu aðstæður og undir eftirliti. Almennt hefur því ríkt sátt um starfsemina í Fíflholtum, ef frá er talin óánægja nágranna við urðunarstaðinn sem telja að óvenjulega mikið að rusli hafi fokið frá Fíflholtum í vetur og dreifst yfir nærliggjandi svæði. En urðunarstað eins og þessum má líkja við „óhreinu börnin hennar Evu“. Allir vilja að starfsemin sé til staðar, en engin vill hafa hana hjá sér. Því er ekki beint hægt að segja að slegist hafi verið um að hafa slíka starfsemi innan sveitarfélagamarka. Nefna má Suðurland sérstaklega í því samhengi. Sveitarfélög á Suðurlandi hafa hætt sorpurðun og áforma nú að senda sorp frá svæðinu utan til brennslu í evrópskum sorpbrennslustöðvum í framhaldi af þeirri ákvörðun Sorpu að hætta að taka við sunnlensku sorpi til urðunar í Álfsnesi.

Jákvætt skref var í síðustu viku stigið í umhverfismálum í Fíflholtum. Þá var formlega tekinn í notkun sérhæfður brennari sem brennir metangasi sem leitt er úr núverandi urðunarrein þar sem metangasframleiðslan er mest. Rörum er komið niður í safnhauginn og eftir þeim leitt metangas til brennslu í sérstökum brennara. Með því móti er dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstaðnum, en áætlað er að það metangas sem að óbreyttu hefði farið út í andrúmsloftið mengi á við 2.500 bensínbíla í umferðinni á ári. Blaðamaður Skessuhorn leit í síðustu viku í heimsókn í Fíflholt. Leiðsögumaður var Hrefna Bryndís Jónsdóttir en hún er framkvæmdastjóri Sorpurðunar Vesturlands. Rætt er um reksturinn í Fíflholtum, helstu verkefni, áskoranir og sitthvað fleira.

Sjá fréttaskýringu og viðtal í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir