Ásgeir Pétursson sýslumarður 1922-2019. Ljósm. Skessuhorn/mþh.

Andlát – Ásgeir Pétursson sýslumaður

Ásgeir Pétursson, fyrrverandi sýslumaður í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og bæjarfógeti í Kópavogi, er látinn á 98. aldursári. Ásgeir fæddist 21. mars 1922 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Pétur Magnússon, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, alþingismaður og ráðherra, og Þórunn Ingibjörg Guðmundsdóttir. Þau áttu átta börn. Ásgeir lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1950 og lagði eftir það stund á framhaldsnám á sviði fjárlagagerðar og stjórnarfarsréttar. Hann kvæntist Sigrúnu Hannesdóttur 1946 og eignuðust þau fjögur börn, Guðrúnu, Ingibjörgu, Sigríði og Pétur. Sigrún lést 2006. Barnabörn og barnabarnabörn Ásgeirs og Sigrúnar eru 15 talsins.

Ásgeir Pétursson kom víða við á langri ævi. Hann var formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, 1950-1952 og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) 1955-1957. Á árunum 1951-1961 starfaði hann í forsætis- og menntamálaráðuneytinu sem fulltrúi, deildarstjóri og sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar menntamálaráðherra árin 1953-1956. Á löngum ferli gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum. Ásgeir var formaður Náttúrverndarráðs Íslands 1956-1960 og stjórnarformaður Sementsverksmiðju ríkisins lengst af á árunum 1959-1989. Hann tók oft sæti á Alþingi sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn á árunum 1964-1972 og kom að mörgum landsmálum svo sem stofnun Tækniskóla Íslands og Ríkisendurskoðunar og að undirbúningi að gerð Borgarfjarðarbrúar. Ásgeir var bæjarfógeti í Kópavogi frá árinu 1979 uns hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1992.

Sem sýslumaður Borgfirðinga beitti hann sér m.a. fyrir stofnun Tónlistarfélags Borgarfjarðar, var formaður byggingarnefndar Dvalarheimilis aldraðra í Borgarnesi og síðar formaður stjórnar þess á árunum 1962-1978. Hann beitti sér fyrir ýmsum framfaramálum í héraði og sagði sjálfur í ítarlegu blaðaviðtali í Skessuhorni fyrir fjórum árum að honum hafi á löngum ferli þótt vænst um veru sína sem sýslumaður Borgfirðinga. Orðrétt sagði hann í fyrrgreindu viðtali í Skessuhorni: „Sýslumennskan var gæfuspor í mínu lífi og okkar hjóna og minnar fjölskyldu. Þessi indælu ár sem ég var sýslumaður í Borgarfirði eru þau 20 ár í minni ævi sem ég held mest upp á og hafa gefið mér gildi í veröldinni gagnvart sjálfum mér, konu minni og börnum.“

Árið 2006 gaf Ásgeir út bókin Haustliti sem hefur að geyma minningar um ýmsa þætti úr lífi hans og kynni af mönnum og málefnum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir