Tengivirki flutt í heilu lagi til Ólafsvíkur

Landsnet hefur undanfarið unnið að því að styrkja flutningskerfið á Snæfellsnesi en á svæðinu hafa á liðnum árum verið tíðar truflanir þar sem loftlínan milli Ólafsvíkur og Vegamóta liggur um Fróðárheiði sem er mjög erfitt svæði veðurfarslega. Gekk verkefnið út á lagningu 2,66 kV jarðstrengs milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur, Grundarfjarðarlínu, og byggingu nýrra tengivirkja í Grundarfirði og Ólafsvík. Með þessari framkvæmd verður afhendingaröryggi raforku á Snæfellsnesi aukið og áreiðanleiki svæðiskerfisins á Vesturlandi eykst.

Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Landsnets komu tveir valkostir til greina. Annars vegar jarðstrengur alla leið eða loftlína með jarðstreng næst Grundarfirði. Þar sem loftlínulausnin samræmdist ekki stefnu stjórnvalda um lagningu 66 kV raflína í jörð, auk þess sem hún var í ofanálag metin sem dýrari lausn, varð jarðstrengur fyrir valinu. Kallaði lagning strengsins á byggingu nýrra tengivirkja í báðum bæjarfélögum. Byggingu tengivirkis í Grundarfirði er nú lokið eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns og nú á dögunum lauk byggingu tengivirkisins í Ólafsvík. Tengivirkið fyrir Ólafsvík er 66 kV tveggja reita tengivirki og var það byggt á höfuðborgarsvæðinu og flutt fullbúið á verkstað.

Hófst ferðalagið með tengivirkið frá Reykjavík að kvöldi 19. júní. Tók flutningurinn alla nóttina enda farið á hægum en öruggum hraða. Fékk Landsnet ET, Orkuvirki og Rarik með sér í verkið og bíllinn sem flutti tengivirkið ekki af minni gerðinni, en undir honum og vagninum voru alls 92 hjól. Þegar kom að síðustu brekkunni, áður en komið var á áfangastað, þurfti bíllinn þó örlitla aðstoð og kom vél frá TS Vélaleigu og aðstoðaði við síðustu metrana. Nú þegar tengivirkið er komið á sinn stað tekur við frágangur og vinna við að koma því í gagnið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir