Ólafsvíkurvaka verður fyrstu helgina í júlí

Ólafsvíkurvaka verður haldin fyrstu helgina í júlí og er undirbúningur í fullum gangi. Að þessu sinni eru það appelsínugula og græna hverfið sem standa að hátíðinni. Að sögn þeirra Ara Bjarnasonar úr appelsínugula hverfinu og Ríkarðs Kristjánssonar úr því græna gengur undirbúningur vel og hafa allir í hverfunum verið áhugasamir og margir komið að undirbúningnum.

Fjölbreytt dagskrá verður í boði og verður hún blanda af viðburðum sem hafa verið margar undanfarnar Ólafsvíkurvökur og nýjum og spennandi viðburðum. Má þar nefna skákkennslu og skákmót, ratleikinn „Ólafsvíkurdrauminn“ og gardenpartý í Sjómannagarðinum þar sem þau Trausti og Lena sjá um fjörið, Herra Hnetusmjör mun verða á Þorgrímspalli á laugardeginum ásamt fleiri skemmtiatriðum, BMX-Bros munu mæta á svæðið og sýna listir sínar og átthagagangan „engu logið“ ásamt byssusýningu. Einnig er stefnt að því að setja upp húsdýragarð um helgina svo eitthvað sé nefnt. Hestamannafélagið verður á sínum stað eins og áður sem og dorgveiðin og hoppukastalarnir. Markaðurinn verður einnig á sínum stað og enn hægt að fá pláss með því að hafa samband við Laufeyju Kristmundsdóttur í síma 899-6904. Jón Sigurðsson Idol stjarna stjórnar brekkusöng í Sjómannagarðinum á laugardagskvöldinu og heldur uppi stuðinu. Þar verða einnig flutt skemmtiatriði frá hverfunum. Vill undirbúningsnefndin hvetja hverfin til að fara að byrja að æfa og undirbúa svo allt verði nú tilbúið. Hljómsveitin Stjórnin mun svo halda uppi stuðinu í Klifi á laugardagskvöldið og fram á nótt. Af allri þessari upptalningu má sjá að það stefnir í góða Ólafsvíkurvöku.

Líkar þetta

Fleiri fréttir