Svipmynd úr leiknum. Ljósm. af.

Víkingur tapaði á heimavelli

Víkingur Ó. þurfti að sætta sig við tap þegar liðið tók á móti Fram í 8. umferð fyrstu deildar í gær á Ólafsvíkurvelli. Strax á sjöttu mínútu fengu Víkingsmenn á sig víti. Michael Newberry missti boltann klaufalega frá sér rétt fyrir utan eigin teig. Tiagi Fernandes hjá liði Fram, lét sér ekki segjast, náði í knöttinn og inn í teig heimamanna þar sem hann var felldur og víti dæmt. Helgi Guðjónsson fór á punktinn og setti boltann örugglega í vinstra hornið. 0-1 fyrir gestina. Það var svo á 36. mínútu sem heimamenn fengu víti og tækifæri til að jafna leikinn. Markmaður gestanna náði að verja vítaspyrnuna frá Harley Willard og Framarar með eins marks forskot sitt í hálfleik. Síðari hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri. Engin alvöru marktækifæri litu dagsins ljós og þrjú stig fóru því öll í Safamýrina til Fram.

Þetta er annar tapleikur Ólafsvíkinga á heimavelli í röð. Við þessi úrslit fer Víkingur úr fjórða sæti niður í það sjötta eftir átta umferðir en mjótt er á munum milli liðanna sem skipa næstu þrjú sæti fyrir ofan, hafa einungis eins stigs forskot. Næsti leikur Víkings Ó. verður á laugardaginn gegn Magna. Leikurinn fer fram á Grenivíkurvelli og hefst klukkan 14:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir