Ljósm. gbh.

Tap gegn erkifjendunum

Skagamenn riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni gegn erkifjendunum í KR í dag. Liðin mættust á Akranesi í áttundu umferð Pepsi Max deildar karla í knattspyrnu. KR-ingar voru sterkari allan leikinn og sigruðu að lokum með þremur mörkum gegn einu.

Skagamenn byrjuðu af krafti og fengu aukaspyrnu rétt við vinstra vítateigshornið strax á fyrstu mínútu leiksins. Tryggvi Hrafn Haraldsson var nálægt því að skora úr aukaspyrnunni með glæsilegu skoti sem stefndi upp í nærhornið en Beitir Ólafsson varði vel frá honum. Á 15. mínútu fengu KR-ingar vítaspyrnu þegar Kristinn Jónsson féll í teig Skagamanna. Pálmi Rafn Pálmason fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Eftir markið tóku KR-ingar öll völd á vellinum og þeir komust í 2-0 á 23. mínútu leiksins. Eftir laglegan samleik fékk Óskar Örn Hauksson boltann fyrir utan vítateig. Hann sneri yfir á hægri og skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið. Gestirnir voru mun sterkari allt til loka fyrri hálfleiks og fengu færi til að bæta við en Skagamenn virkuðu aftur á móti heillum horfnir.

Skagamenn voru líflegri í síðari hálfleik en það voru engu að síður KR-ingar sem stjórnuðu ferðinni. Eftir því sem leið á leikinn opnaðist hann meira og fleiri færi litu dagsins ljós. Tobias Thomsen fékk tvö dauðafæri, annað eftir stangarskot Óskars Arnar, en inn vildi boltinn ekki. Þriðja mark KR lá í loftinu og það kom á 80. mínútu. Óskar Örn keyrði inn í teiginn, lagði boltann fyrir fætur Tobiasar sem skoraði snyrtilegt mark.

Þremur mínútum síðar minnkuðu Skagamenn muninn. Þórður Þorsteinn Þórðarson sendi góða fyrirgjöf fyrir mark KR-inga, beint á kollinn á Viktori Jónssyni sem átti hörkuskalla að marki. Beitir virtist verja hann í slánna, en þaðan fór boltinn í stöngina, í bakið á Beiti og í netið. Viktor var síðan nálægt því að skora annað mark í uppbótartíma en brenndi af úr dauðafæri og þar við sat. KR-ingar sigruðu 3-1 og tylla sér því í toppsæti deildarinnar.

Skagamenn eru í þriðja sæti með 16 stig, jafn mörg og Breiðablik í sætinu fyrir ofan en fjórum stigum á undan næstu liðum. Næst leikur ÍA gegn HK laugardaginn 22. júní næstkomandi. Sá leikur fer einnig fram á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir