Ragna Árnadóttir ráðin skrifstofustjóri Alþingis

Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, var í dag ráðin skrifstofustjóri Alþingis, að fenginni tillögu hæfnisnefndar. Hún var valin úr hópi tólf umsækjenda og er fyrsta konan til að gegna embættinu. Hún tekur við 1. september næstkomandi, þegar Helgi Bernódusson, núverandi skrifstofustjóri, lætur af embættinu.

Ragna er lögfræðingur að mennt, með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands, auk þess að vera með LL.M. gráðu í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi. Starfsreynsla Rögnu er fjölbreytt. Hún hefur starfað á skrifstofu Alþingis, skrifstofu Norðurlandaráðs, í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti og forsætisráðuneyti. Þá hefur hún gegnt embætti dóms- og kirkjumálaráðherra og síðar embætti dómsmála- og mannréttindaráðherra og er nú aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar. Samhliða þessum störfum hefur Ragna gegnt margs konar ábyrgðar- og trúnaðarstörfum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir