Slökkviliðsmenn að störfum á Hýrumel núna rétt áðan. Ljósm. mm.

Eldur á Hýrumel

Slökkvilið Borgarbyggðar var kallað út rétt fyrir kl. 15:00 í dag vegna elds á svínabúinu að Hýrumel í Hálsasveit í Borgarfirði. Upp kom eldur í inntaksmannvirki, gámi þar sem rafmagnsinntak og varaaflsstöð svínabúsins er staðsett. Gámurinn stendur við enda eins hússins en er ekki sambyggður því og eldurinn aðeins bundinn við hann.

Slökkviliðsmenn voru snöggir á staðinn. Mjög greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins og slökkvistarfi lauk um það bil 40 mínútum eftir að útkallið barst. Engan sakaði, hvorki menn né skepnur.

Slá þurfti út öllu rafmagni á búinu og síðan voru allar dyr opnaðar upp á gátt til að svínin fengju nægt súrefni. Kemur sér vel að stíf norðan átt er á staðnum og hægt að láta vindinn blása í gegnum húsin. Helsta tjónið felst í því að aðal rafmangstafla svínabúsins er brunnin.

Líkar þetta

Fleiri fréttir