Töluvert um hraðakstur um liðna helgi

Hraðakstur var mjög áberandi í verkefnum Lögreglunnar á Vesturlandi í vikunni sem leið. Einkum kom mikið um hraðakstursbrot um hvítasunnuhelgina. Að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns var mjög algengt að ökumenn væru stöðvaðir á milli 110 og 120 km/klst. og töluvert margir óku enn hraðar. Sá sem hraðast ók í vikunni var stöðvaður á Snæfellsnesvegi kl. 7:35 á föstudagsmorgun. Hann var á hvorki meira né minna en 144 km/klst., en leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst. Viðurlög við ákæru vegna aksturs á 144 km/klst. eru sér 210 þúsund króna sekt, svipting ökuleyfis í einn mánuð og þrír punktar í ökuferilsskrá. Annar var mældur á Snæfellsnesvegi á 129 km/klst. sama dag og var gert að greiða 115 þúsund króna og annar þurfti að reiða fram sömu upphæð fyrir að hafa ekið á 132 km/klst. um Snæfellsnesveg við Tunguós á sunnudag. Þá var enn annar ökumaður á Snæfellsnesvegi sektaður um 80 þúsund krónur fyrir að aka á 121 km/klst. við Kolgrafafjarðarbrú. Lögregla vill minna á að leyfilegur hámarkshraði er miðaður við bestu aðstæður, sem þýðir að fólk á að hægja á sér þegar það kemur að brúm, gatnamótum og slíku.

Líkar þetta

Fleiri fréttir