Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri Slökkviliðs Borgarbyggðar.

Slökkviliðsmenn á aukavakt um helgina

„Aukavakt hefur verið mönnuð á bakvakt um helgina. Það eru allir á tánum,“ segir Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri slökkviliðs Borgarbyggðar, í samtali við Skessuhorn. Hann er einn þeirra sem fylgist náið með stöðu mála eftir að óvissustigi vegna hættu á gróðureldum var lýst yfir á þriðjudag og viðbragðsáætlun virkjuð fyrir Skorradal.

„Slökkviliðsmenn hafa verið að ræða á milli sín um ástandið. Menn eru í viðbragðsstöðu og meðvitaðir um að eitthvað gæti gerst. Slökkviliðsæfing sem átti að halda á Hvanneyri á föstudaginn hefur verið færð upp í Skorradal. Þar munum við æfa hvernig við komum okkur að vatni og öflum þess ef eldur kemur upp í dalnum,“ segir hann. „Það er mikilvægt að æfa það sérstaklega, þar sem aðgengi að Skorradalsvatni fyrir slökkvilið er ekki nógu gott. Hægt er að fara niður að vatninu á nokkrum stöðum. En ef upp kemur sú staða að berjast þurfi við eld á ákveðnum stöðum í dalnum kallar það á miklar dælingar,“ bætir hann við.

Í Skorradal eru um 650 sumarbústaðir. Sumarhúsabyggðin er og stendur í þéttum gróðri sem er orðinn mjög þurr. „Þess vegna viljum við brýna fyrir öllum sem eru í sumarbústöðum að taka engar áhættur með eld og helst ekki kveikja neinn eld,“ segir hann. „Það þarf ekki mikið til þegar gróður er orðinn svona þurr,“ segir Þórður og minnir á ein sígaretta hafi orsakað Mýraeldana árið 2006, mestu gróðurelda Íslandssögunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir