Bæjarstjóri ásamt starfsfólki Fjöliðjunnar í nýja húsnæðinu að Smiðjuvöllum í dag. Ljósm. Akraneskaupstaður.

Fjöliðjan opnuð á nýjum stað eftir helgi

Stefnt er að því að starfsemi Fjöliðjunnar á Akranesi hefjist a fullum krafti á nýjan leik eftir helgi að Smiðjuvöllum 9. Trésmiðjan Akur er eigandi hússins og hafa tekist samningar milli Akraneskaupstaðar og fyrirtækis um leigu húsnæðisins til ársloka 2020. „Í dag eru stjórnendur og starfsmenn Akurs, sem sýnt hafa verkefninu einstakan velvilja, að vinna á fullum krafti við að breyta og aðlaga húsnæðið að starfseminni. Unnið er að því að setja upp milliveggi, rafmagn, salernisaðstöðu og eldhús. Vonir standa til að öll starfsemi geti hafist á nýjum stað eftir hvítasunnuhelgi,“ segir á vef Akraneskaupstaðar.

Eins og áður hefur verið greint frá kom upp eldur í húsnæði Fjöliðjunnar við Dalbraut fyrir mánuði síðan. Eldsupptök eru rakin til rafhlaða úr veglyklum Hvalfjarðarganga sem Fjöliðjan var að flokka fyrir Spöl og Vegagerðina, að því er fram kemur á vef Akraneskaupstaðar.

„Starfsemi Fjöliðjunnar er gríðarlega mikilvæg en einnig viðkvæm. Fjöliðjan er vinnu- og hæfingarstaður fyrir fólk með skerta starfsgetu. Verkefnin þar eru mjög fjölbreytt en m.a. er dósaflokkun þar og alls konar pökkunarstarfsemi svo sem á Prins Polo, pökkun á afmæliskortum og líming endurskinsborða á veggstikur. Í Fjöliðjunni starfa um 50 manns og þar af eru 11 leiðbeinendur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir