Nemendur og starfsfólk leikskólans Vallarsels í skrúðgöngu á 40 ára afmæli skólans núna í vor. Vallarsel er einn fjögurra leikskóla á Akranesi. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Ljósm. úr safni frá því í vor/mm.

Leggja til að nýr leikskóli verði byggður á Akranesi

Skóla- og frístundasvið Akraneskaupstaðar leggur til að byggður verði nýr leikskóli á Akranesi. Tillaga ráðsins byggir á niðurstöðum starfshóps um framtíðarþörf á leikskólaplássi á Akranesi. Skýrsla starfshópsins var lögð fram á fundi skóla- og frístundaráðs í gær. Ráðið leggur einnig til að skoðað verði hvernig bæta megi starfsaðstæður barna og starfsfólk í eldri leikskólabyggingum. „Með því að ráðast í byggingu á nýjum leikskóla næst að mæta ákalli eftir meiri þjónustu leikskólastigsins, íbúaþróun og nýjum hugmyndum um gæði húsnæðis. Þessi hugmynd gerir ráð fyrir því að leikskólinn Garðasel flytjist í nýtt húsnæði sem skapar hagræði í stjórnun og rekstri og mætir að einhverju leyti húsnæðisþörf Grundaskóla,“ segir í fundargerð.

Sviðsstjóra var falið að koma með útfærðar tillögur um málið sem innlegg í fjárhagsáætlanagerð ársins 2020. Sviðsstjóra var einnig falið að meta áætlaða þörf á leikskólaplássi næstu fimm árin, byggt á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu starfshópsins. Jafnframt að afla upplýsinga um búsetudreifingu barna á leikskólaaldri og spá fyrir um þróun hennar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir