Ljósm. úr safni/ af.

Fundu aldrei taktinn

Ólafsvíkingar máttu sætta sig við 2-0 tap á útivelli gegn Leikni R., en liðin mættust í fimmtu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á föstudagskvöld.

Heimamenn voru betri í fyrri hálfleik en leikmenn Víkings Ó. náðu sér ekki á strik. Leiknir fékk fleiri færi framan af leiknum og vildu meina að löglegt mark hefði verið tekið af þeim eftir um 20. mínútna leik. Víkingar áttu álitlega skyndisókn undir lok fyrri hálfleiks en hún rann út í sandinn. Staðan var því markalaus þegar flautað var til hálfleiks.

Meira jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Ólafsvíkingar vildu fá vítaspyrnu þegar þeir töldu boltann fara í hönd varnarmanns eftir langt innkast en dómarinn var ekki á sama máli. Stuttu seinna náðu þeir góðum samleik vinstra megin á vellinum en hann rann út í sandinn. Fyrsta mark leiksins komst síðan á 60. mínútu þegar Sólon Breki Leifsson kom Leiknismönnum yfir. Hann náði að slíta sig frá Michael Newberry áður en hann lét vaða og skoraði með þéttingsföstu skoti í vinstra hornið. Tíu mínútum síðar bættu heimamenn öðru marki við. Ingólfur Sigurðsson sendi boltann fyrir markið á Ígnacio Heras Anglada sem var aleinn í teignum og skoraði.

Sókn Víkinga þyngdist eftir því sem leið á leikinn. Undir lokin voru allir leikmenn vallarins nema Franko Lalic, markvörður Víkings, á vallarhelmingi Leiknis. Þeim tókst hins vegar ekki að skapa sér nein ákjósanleg marktækifæri og því fór sem fór. Leiknir sigraði með tveimur mörkum gegn engu.

Víkingur Ó. hefur tíu stig í þriðja sæti deildarinnar, jafn mörg og Keflavík í sætinu fyrir ofan en stigi meira en næstu lið fyrir neðan. Ólafsvíkingar leika næst á heimavelli föstudaginn 7. júní næstkomandi þegar þeir fá Keflvíkinga í heimsókn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir