Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði fyrsta mark ÍA í 3-2 endurkomusigri gegn Þrótti R. Ljósm. úr safni/ gbh.

Endurkomusigur í bikarnum

Skagakonur eru komnar áfram í Mjólkurbikar kvenna eftir frábæran endurkomusigur á Þrótti R. á Akranesvelli á föstudagskvöld, 3-2.

Gestirnir úr Reykjavík byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust yfir strax á 2. mínútu. Lauren Wade fékk sendingu inn fyrir vörn Skagakvenna og kláraði vel framhjá Tori Ornela í markinu. Þróttur réði gangi mála á vellinum eftir markið og bætti öðru marki við á 15. mínútu. Linda Líf Boama renndi boltanum fyrir markið þar sem Lauren stakk sér á milli varnarmanna ÍA og skoraði með skoti í bláhornið. Skagakonur minnkuðu muninn á 24. mínútu eftir mistök í vörn Þróttar. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir komst inn í lélega sendingu til baka og sendi boltann auðveldlega í netið. Eftir markið sóttu Skagakonur í sig veðrið en tókst þó ekki að jafna metin áður en flautað var til hálfleiks.

Skagakonur mættu ákveðnar til síðari hálfleiks og tókst að jafna metin á 54. mínútu. Varnarmönnum Þróttar gekk illa að koma boltanum í burtu eftir hornspyrnu. Að lokum barst hann í átt að Fríðu Halldórsdóttur fyrir utan teig. Fríða var ekkert að tvínóna við hlutina heldur þrumaði honum viðstöðulaust í slánna og inn. Stórkostlegt mark hjá Fríðu.

Leikurinn var galopinn eftir jöfnunarmark Skagakvenna og bæði lið fengu færi til að komast yfir. Það var síðan á 75. mínútu sem Eva María Jónsdóttir kom ÍA yfir. Aftur gekk gestunum illa að hreinsa frá marki eftir hornspyrnu. Boltinn barst á Evu sem skoraði með hárnákvæmu skoti af vítateigslínunni. Mikið fjör var í leiknum eftir að ÍA komst yfir og bæði lið fengu sín tækifæri til að bæta við marki. Þau færi fóru hins vegar forgörðum og niðurstaðan frábær endurkomusigur ÍA, 3-2.

Skagakonur eru því komnar áfram í Mjólkurbikarnum. Seinna í dag verður dregið í átta liða úrslit bikarsins og þá kemur í ljós hverjir mótherjar ÍA verða.

Líkar þetta

Fleiri fréttir