Ljósm. gbh.

Skagamenn úr leik í bikarnum

Skagamenn eru úr leik í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir 2-1 tap gegn FH í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og náðu að skapa sér nokkur ágætis færi fyrstu mínúturnar, en öll fóru þau forgörðum. Skagamenn komust betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn en náðu ekki að gera neina alvöru atlögu að marki FH-inga. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Síðari hálfleikur var mun líflegri en sá fyrri og bæði lið fengu góð færi. Kristinn Steindórsson var nálægt því að koma FH yfir á 59. mínútu en þrumuskot hans small í stönginni. Strax í næstu sókn fékk Viktor Jónsson dauðafæri hinum megin á vellinum en skallaði yfir af stuttu færi. Stuttu síðar fékk Brandur Olsen dauðafæri en Árni Snær Ólafsson varði vel í marki ÍA.

Það var ekki fyrr en á 72. mínútu að ísinn var brotinn og þar var á ferðinni FH-ingurinn Steven Lennon. Arni Snær varði skot frá Jónatan Inga Jónssyni en boltinn féll beint fyrir fætur Stevens sem skoraði auðveldlega. Heimamenn komust síðan í 2-0 á 81. mínútu þegar Jákup Thomsen skoraði með skalla eftir hornspyrnu.

En Skagamenn voru fljótir að minnka muninn. Aðeins mínútu eftir mark FH-inga fékk Jón Gísli Eyland Gíslason boltann fyrir utan teig og þrumaði honum í stöngina og inn. Jón Gísli átti síðan fyrirgjöf skömmu síðar sem small í þverslánni en nær komust þeir ekki. FH-ingar sigruðu 2-1 og Skagamenn hafa því lokið þátttöku sinni í Mjólkurbikarnum að þessu sinni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir