Ljósm. úr safni/ sas.

Góður sigur Skallagríms

Skallagrímur vann góðan 2-0 sigur á KH þegar liðin mættust í fimmtu umferð 3. deildar karla í knattspyrnu í gær, uppstigningardag. Leikið var í Borgarnesi.

Skallagrímsmenn byrjuðu leikinn vel og komust yfir strax á 3. mínútu. Eftir markspyrnu frá marki heimanna var boltinn skallaður fyrir fætur Declan Redmond. Hann sendi hann í fyrstu snertingu á Gísla Laxdal Unnarsson á vinstri kantinum. Gísli átti glæsilega móttöku, stakk af tvo varnarmenn og skoraði örugglega einn á móti markverði.

Gestirnir sóttu nokkuð stíft eftir að Borgnesingar komust yfir en skildu jafnframt eftir mikið svæði fyrir aftan vörnina. Skallagrímsmenn lágu til baka og beittu skyndisóknum og hefðu hæglega getað bætt við mörkum.

Staðan í hálfleik var 1-0 og þannig var hún allt þar til á 81. mínútu leiksins. Javier Lain Lafuente átti langan hreinsun frá marki Skallagríms sem Gísli Laxdal þefaði uppi á undan varnarmönnum KH. Hann lék á markmann fyrir utan vítateig og sendi boltann í netið úr þröngu færi. Skoraði Gísli þar annað mark sitt og tryggði 2-0 sigur Borgnesinga.

Eftir fimm leiki hefur Skallagrímur sex stig í sjötta sæti deildarinnar, tveimur stigum minna en Álftanes í sætinu fyrir ofan en eins stigs forskot á næstu lið.

Næsti leikur Borgnesinga er útileikur gegn Sindra á Hornarfirði mánudaginn 10. júní næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir