Eldborg.

Sagan verður ekki flutt milli byggðarlaga

Á aðalfundi Félags Snæfellinga og Hnappdæla sem haldinn var 22. maí síðastliðinn var samþykkt ályktun þar sem lýst er áhyggjum yfir þeirri þróun á Snæfellsnesi, að fyrrum Kolbeinsstaðahreppur og Skógstrandarhreppur teljist ekki lengur í reynd til héraðsins Snæfellsness. „Þessu veldur sameining þessara hreppa við Borgarbyggð og Dalabyggð. Landfræðilega, sögulega og menningarlega hafa þessir hreppar öldum saman, verið órofa hluti Snæfellsness. Héraðaskipun á Íslandi snýst ekki aðeins um stjórnsýslueiningar, heldur er hún stór hluti af sjálfsmynd íbúa, ekki síst þeirra sem dvelja ekki lengur á æskuslóðum. Það á ekki að gera Skógstrendinga að Dalamönnum og Kolhreppinga að Borgfirðingum. Saga, menning og landslag verður ekki flutt milli byggðarlaga,“ segir orðrétt í ályktun sem samþykkt var samhljóma á fundinum.

Ætlað að vekja sveitarstjórnarmenn til umhugsunar

Í umræðum um tillöguna á fundinum kom fram, að fólk sem annast leiðsögn, er margt mjög illa upplýst um Snæfellsnes og enn gengur ljósum logum að Eldborg sé á Mýrum en ekki í Kolbeinsstaðahrepp á Snæfellsnesi. „Í umfjöllun um Snæfellsnes gætir í mjög vaxandi mæli að Kolbeinsstaðahreppur og Skógarstrandarhreppur eru ekki lengur taldir með. Félagssvæði Félags Snæfellinga og Hnappdæla hefur ávallt verið Snæfellsness- og Hnappadalssýsla, en félagið verður einmitt 80 ára á þessu ári. Félagið á vinsælan orlofsbústað á Arnarstapa, staðsettur niður við höfnina í frábæru umhverfi,“ segir Reynir Ingibjartsson félagsmaður í samtali við Skessuhorn. Í stjórn félagsins eru nú Jón Pétur Úlfljótsson formaður, Arnbjörg Gylfadóttir Blöndal gjaldkeri og Jóhanna Heiðdal Sigurðardóttir ritari. „Vonandi verður samþykkt þessarar tillögu til þess að vekja sveitarstjórnarmenn og aðra heimamenn á Snæfellsnesi til umhugsunar um þessa þróun,“ segir Reynir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir