Fjölbreytt starf Skólakórs Snæfellsbæjar

Vortónleikar Skólakórs Snæfellsbæjar fóru fram 15. maí í Ólafsvíkurkirkju. Tónleikarnir báru yfirskriftina „Ferðumst með vindinum“ en á þeim söng kórinn lög frá ýmsum löndum á ólíkum tungumálum, svo sem frönsku, rúmensku, sænsku, ensku og íslensku. Kórstarfið hjá skólakórnum er mjög öflugt og þær Veronica Osterhammer kórstjóri og Nanna Aðalheiður Þórðardóttir meðleikari eru búnar að vinna mikið og gott starf með börnunum undanfarin ár. Í vetur hafa verið um það bil 30 börn í 2. til 6. bekk grunnskólans í kórnum og hefur strákum fjölgað síðan í fyrra sem er gleðilegt.

Meðal þess sem kórinn hefur tekið sé fyrir hendur í vetur er að syngja á fjölmenningarhátíðinni, á aðventukvöldi í Ólafsvíkurkirkju, í æskulýðsmessum í Ingjaldshólskirkju og Ólafsvíkurkirkju, á skólaslitum grunnskólans ásamt því að fara í heimsókn á dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar og syngja bæði yfir jól og svo aftur í vor. Að halda úti barnakór í bæjarfélagi af þessari stærðargráðu er örugglega ekki alltaf auðvelt en þær stöllur Veronica og Nanna hafa náð góðum árangri með þessum flottu krökkum. Meðal þess sem kórinn gerir er að hafa æfingadag á Brimilsvöllum þar sem Veronica býr en þann dag fá allir m.a. að fara á hestbak og nú á vordögum mun kórinn fara í vorferð um Snæfellsnesið.

Líkar þetta

Fleiri fréttir