Fallegt svæði að verða til við Faxabraut

Margir hafa fylgst með framgangi svæðisins þar sem mannvirki Sementsverksmiðjunnar stóðu áður við Faxabraut á Akranesi. Verktakafyrirtækið Work North ehf hefur annast niðurrif mannvirkjanna. Niðurrifið hefur gengið vel og sér nú fyrir endann á frágangi svæðisins. Búið er að fjarlægja þau mannvirki sem fólust í samningnum við verktakann og langt komið með að slétta svæðið. Þar er nú komin slétt og falleg flöt, ígildi nokkurra fótboltavalla að flatarmáli. Nú verður sáð í flötina og má því búast við að hún verði græn síðar í sumar. Svæðið hefur verið deiliskipulagt. Að sögn Sævars Freys Þráinssonar bæjarstjóra er ekki gert ráð fyrir að byggingaframkvæmdir hefjist þar á þessu ári þótt ekki megi útiloka að fyrstu lóðum þar verði úthlutað. Hann segir binda vonir við að framkvæmdir við grjótvörn og endurbætur Faxabrautar geti hafist á þessu ári. Ríkið lagði fjármagn í það verkefni á síðustu fjárlögum og undirbýr Vegagerðin útboð vegna þeirra framkvæmda. Faxabraut er eins og kunnugt er þjóðvegur í þéttbýli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir