Samkomulag hefur nú náðst um verðmat á fasteigninni á Borgarbraut 55 og skapast um leið svigrúm til að leggja megi innkeyrslu að bílastæðum fjölbýlishúss við Borgarbraut 57.

Samkomulag næst um að verðmat fari fram

Sveitarstjórn Borgarbyggðar og lóðarhafar við Borgarbraut 55 í Borgarnesi hafa komist að samkomulagi um kaup sveitarfélagsins á húseigninni. Þetta eru fyrirtækin Grani ehf. þar sem verslun Líflands er til húsa og Bifreiðaþjónustu Harðar ehf. þar sem dekkja- og smurverkstæði er. Fimmtíu ára lóðarleigusamningur rann út 25. apríl síðastliðinn og samkvæmt fyrri ákvörðun sveitarstjórnar lá fyrir að hann yrði ekki endurnýjaður við núverandi lóðarhafa. Samningsaðilar hafa frá því á síðasta ári deilt um hvort núverandi lóðarhafar hefðu lögvarinn rétt á framlengingu lóðarleigusamninga. Nú hefur náðst sátt um að tveir óháðir matsmenn, löggiltir fasteignasalar, verði fengnir til að verðmeta fasteignina og að gengið verði frá kaupum Borgarbyggðar á húsinu sem fyrst. „Matsverð hvors eignarhluta um sig skal fengið þannig að tveir óháðir matsmenn (löggiltir fasteignasalar) framkvæmi sitt hvort sjálfstæða matið á markaðsvirði hvors hluta fasteignarinnar að Borgarbraut 55, miðað við forsendur í apríl 2019.  Matsmenn skulu meta eignarhlutana miðað við núverandi eða hliðstæð not með forsendur á fasteignamarkaði í Borgarnesi í dag að leiðarljósi og þá horfa til þess búnaðar sem þeim fylgir. Kaupandi greiðir kostnað af mati,“ segir í samningnum sem sveitarstjórn kvittaði fyrir  á fundi sínum í gær.

Jafnframt greiðist úr öðrum málum

[Uppfærður texti]:

Samkomulag Borgarbyggðar við lóðarhafa að B55 greiðir fyrir því að hægt sé að ganga frá innkeyrslu á baklóð við Borgarbraut 57. Í samningnum felst m.a. að lóðarhafar við Borgarbraut 55 skuldbinda sig til þess að standa á engan hátt í vegi fyrir því að sveitarfélagið leggi innkeyrslu á lóðarmörkum lóðanna Borgarbraut 55 og Borgarbraut 57, í samræmi við núgildandi deiliskipulag, þó að framkvæmdin kunni að hafa í för með sér rask og/eða óþægindi fyrir þá. Jafnframt skapast við fyrrgreint samkomulag forsendur til að undirbúa uppbyggingu íbúðarhúsnæðis að Borgarbraut 55 í náinni framtíð, þannig að miðbær Borgarness fari að taka á sig endanlega mynd.

Líkar þetta

Fleiri fréttir