Búið að upplýsa rúðubrot í vita

Lögreglu var tilkynnt um eignaspjöll á Hnausavita við norðanvert Kirkjufell í vikunni sem leið þegar kom í ljós að rúður höfðu verið brotnar. Vitinn er einnig kallaður Grundarfjarðarviti og var byggður árið 1945. Að sögn lögreglu var birt tilkynning um spjöllin á Facebook-síðu Grundarfjarðarbæjar. Þar var óskað eftir upplýsingum almennings um hugsanlegar mannaferðir við vitann. Í kjölfar þess komst upp hverjir voru að verki og reyndust það vera krakkar. Að sögn lögreglu var fundin mjög farsæl lausn í málinu. Ekki hefur verið gerð bótakrafa á foreldrana heldur ætlar umsjónarmaður vitans að fá að hitta krakkana, fræða þá um sögu Hnausavita og fá þá til að hjálpa sér að þrífa og laga til eftir skemmdirnar sem þeir ollu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir